Endurvinnsla orða: tómthússkattur
Í húsnæðisstefnu Samfylkingarinnar fyrir væntanlegar Alþingiskosningar segir: „Heimilum sveitarfélögum að leggja svokallaðan tómthússkatt á tómar íbúðir.“ Þótt orðið tómthússkattur sé nýtt í málinu er ekki hægt að segja annað en það sé mjög gagnsætt, en hins vegar getur það truflað fólk að orðið tómthús er fyrir í málinu í allt annarri merkingu, 'bú sem hefur hvorki jörð né skepnur, þurrabúð' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók – þar sem það er að vísu merkt „gamalt“. Orðið er aðallega þekkt í samsetningunni tómthúsmaður sem er skýrt 'sjómaður eða daglaunamaður í verstöð eða kauptúni sem hefur ekki afnot af jörð, þurrabúðarmaður' í Íslenskri nútímamálsorðabók – og einnig merkt þar „gamalt“.
Ég er almennt séð hlynntur því að endurnýta orð sem hafa lokið hlutverki sínu í fyrri merkingu. Um þetta eru ýmis dæmi í málinu, þekktust líklega sími sem merkti 'þráður' í fornu máli og skjár sem áður merkti 'gegnsæ himna í glugga, notuð í stað rúðu'. Nýlegt dæmi er svo bur sem áður var karlkynsorð og merkti 'sonur' en var nýlega gert að hvorugkynsorði í merkingunni 'afkvæmi til að nota í kenninöfnum. Vissulega hefur slík endurnýting stundum mætt andstöðu –Helgi Hálfdanarson skrifaði t.d. grein sem hét „Orð á glapstigum“ gegn hinni nýju merkingu orðsins skjár, og ýmsar athugasemdir voru líka gerðar við breytinguna á orðinu bur, enda þótt það hafi áður verið bundið við skáldamál og sennilega aldrei verið hluti af daglegu máli.
Þótt orðin tómthús, tómthúsmaður og tómthúsbýli séu sjaldgæf í nútímamáli, og ekki notuð nema í sögulegu samhengi, eru þau vissulega ekki alveg horfin úr málinu. Því má spyrja hvort réttlætanlegt sé að taka upp orðið tómthússkattur þar sem fyrri hlutinn er sameiginlegur eldri orðunum en tengist þeim ekki merkingarlega. Þetta er vissulega álitamál, en í mínum huga snýst það fyrst og fremst um það hvort líklegt sé að þetta geti valdið misskilningi – gæti fólk sem lærir nýja orðið en þekkir ekki þau gömlu misskilið þau ef það rekst á þau í textum? Ég held ekki – ég sé ekki að hægt sé að fá nokkra merkingu, rétta eða ranga, í gömlu orðin út frá því nýja og fólk muni því fletta þeim upp í orðabókum eins og það hefði þurft að gera hvort eð er.