Framburður erlendra heita í íslensku

Mér finnst ég taka eftir því að framburður ýmissa erlendra staðaheita hafi breyst í seinni tíð. Heiti ríkjanna California og Pennsylvania í Bandaríkjunum voru í mínu ungdæmi oftast aðlöguð íslenskum framburðarreglum – borin fram með áherslu á fyrsta atkvæði og það fyrrnefnda með innskots-d á milli r og n, -rdn­- (eins og í lýsingarorðinu forn) og það síðarnefnda með a í -van-. Nú heyri ég æ oftar að framburður þessara heita er að nálgast ameríska framburðinn – sambandið -rn- í Kalifornía er borið fram án d-innskotsins (eins og í samsetningunni hor-nös) og Pennsylvanía er borið fram með ei í stað a, Pennsylveinía. Bæði heitin eru líka oft borin fram með aðaláherslu á þriðja atkvæði, KaliFORnía og PennsylVEInía.

Þetta er auðvitað ekkert óvænt eða óeðlilegt. Áður fyrr heyrðu Íslendingar þessi heiti mjög sjaldan, eins og aðra útlensku, og framburður þeirra tók því oftast mið af ritmyndinni. En með auknum kynnum okkar af erlendum málum – fyrst með kvikmyndum og sjónvarpi, síðar með neti, ferðalögum og ferðafólki – heyrir fólk þessi heiti mjög oft með sínum ameríska framburði, og mjög skiljanlegt að það taki hann upp. Það er samt líka skiljanlegt að þeim sem hafa alist upp við ritmálsframburð þessara heita bregði við breyttan framburð þeirra og telji að þar sé um óæskileg ensk áhrif að ræða, enda sé þarna verið að bregða út af hefð. Mér finnst samt engin ástæða til að amast við þessu, en hins vegar er þetta angi af miklu stærra máli.

Skylt þessu er framburður ýmissa erlendra skammstafana. Skammstöfun enska heitisins Union of European Football Associations, eða Samband evrópskra knattspyrnusamtaka, er UEFA og farið með hana sem orð sem borið er fram eitthvað í átt við eifa. Þessi framburður er einnig iðulega notaður í íslensku og það hefur oft verið gagnrýnt. Það kæmi til greina að nota íslenska skammstöfun, SEKS, og bera hana annaðhvort fram sem orð eða hvern bókstaf fyrir sig. En íslenskt heiti sambandsins á sér enga hefð, öfugt við t.d. European Union, EUEvrópusambandið, skammstafað ESB. Það væri hægt að bera þetta fram u-e-f-a– en er það eitthvað betra? Þetta er bara eins og hvert annað enskt heiti sem er látið halda sínum framburði.

En þetta snýst ekki bara um framburð enskra heita og orða. Vegna þess hversu áberandi enskan er í umhverfi okkar er algengt að hún hafi áhrif á framburð okkar á heitum og orðum úr öðrum tungumálum – í Málvöndunarþættinum hefur þetta stundum verið kallað „Rídsjard Wogner-heilkennið“. Það má vissulega gagnrýna þetta en það kemur hins vegar íslensku sáralítið við – segir ekkert um kunnáttu í íslensku heldur sýnir fremur þekkingarskort á umræðuefninu og öðrum erlendum tungumálum en ensku. Þetta er á sinn hátt alveg sambærilegt við þann ritmálsframburð sem Íslendingar notuðu yfirleitt á erlend heiti áður fyrr – framburðurinn miðast við þá fyrirmynd sem við höfum, sem áður var ritmálið en nú enskur framburður.

Það er auðvitað hægt að hafa þá skoðun að öll erlend orð sem notuð eru í íslensku samhengi, hvort sem það eru mannanöfn, staðaheiti eða annað, eigi að laga að íslenskum framburðarreglum – ekki nota í þeim nein hljóð, hljóðasambönd eða áherslumynstur nema þau sem komi fyrir í íslensku. Ég veit samt ekki um fólk sem hafi þessa skoðun enda væri hún fullkomlega óraunhæf – alveg jafn óraunhæf og sú skoðun sem ég veit ekki heldur til að hafi verið sett fram, að við eigum alltaf að bera öll erlend orð fram eins og þau eru borin fram í upprunamálinu. Þarna verður að fara einhvern milliveg og oft er tilviljun hvernig sá millivegur verður, en óneitanlega mótast hann oft af því að leiðin til okkar liggur iðulega í gegnum ensku.