Undarlegt, undanlegt og undalegt

Í Málvöndunarþættinum var nýlega spurst fyrir um myndina undanlegt sem fyrirspyrjandi hafði rekist á í blaði frá 1925 og velti fyrir sér hvort þessi mynd hefði verið notuð í stað undarlegt. Ég hafði aldrei rekist á þetta og taldi í fyrstu að þetta hlyti að vera prentvilla, en þegar ég fór að skoða málið skipti ég um skoðun. Á tímarit.is eru alls um 180 dæmi um atviksorðið undanlega og lýsingarorðið undanlegur, í ýmsum beygingarmyndum – elsta dæmið frá árinu 1900. Í Risamálheildinni eru dæmin um 70, þar af um helmingur af samfélagsmiðlum. Þetta eru alltof mörg dæmi til að hægt sé að gera ráð fyrir að alltaf sé um prentvillu að ræða, þannig að myndin undanleg- hefur greinilega verið í einhverri notkun frá því í upphafi síðustu aldar.

Auðvitað er enginn vafi á því að undanleg- er komið af undarleg-, hvort sem við viljum kalla það afbökun, misskilning eða eitthvað annað. Lýsingarorðið undarlegur kemur fyrir þegar í fornu máli og er skylt nafnorðinu undur en eins og kemur fram í Íslenskri orðsifjabók hafa orðið víxl á -ur (áður -r) í því orði og -ar- í undarlegur. Trúlegt er að þessi víxl dragi úr gagnsæi orðsins undarlegur – valdi því að málnotendur tengi orðið ekki endilega við undur. Þessi skortur á gagnsæi veldur því svo að meiri líkur eru á að orðið breytist vegna þess að það styðst ekki við annað orð sem fólk þekkir. Heyranlegur munur á r og n í lok atkvæðis inni í orði er mjög lítill og þess vegna viðbúið að fólk misheyri stundum undan- fyrir undar-.

En stundum virðist r-ið líka falla alveg brott og þess vegna mætti búast við því að finna ritháttinn undaleg- án r. Ég hafði ekki tekið eftir slíkum dæmum, frekar en dæmum um undanleg-, en þau reyndust samt vera til þegar að var gáð – um ritháttinn undaleg- eru um 70 dæmi á tímarit.is, það elsta frá árinu 1900 eins og elsta dæmið um undanleg-. Það er hins vegar athyglisvert að dæmin í Risamálheildinni eru miklu fleiri eða tæp 150 – langflest af samfélagsmiðlum. Þetta er alveg öfugt við dæmin um undanleg- sem voru mun fleiri á tímarit.is en í Risamálheildinni. Vegna þess að textarnir í Risamálheildinni eru flestir frá þessari öld gæti þetta bent til þess að framburðurinn þar sem r fellur alveg brott sé að færast í vöxt.

Það er sem sé trúlegt að áður hafi fólk yfirleitt heyrt þarna eitthvert samhljóð en það hafi iðulega verið svo veikt að fólk gat skynjað það sem n í stað r – og sú skynjun endurspeglaðist í rithættinum. Núna er trúlegt að fólk heyri oft ekkert samhljóð á þessum stað og sú skynjun endurspeglast þá líka í rithættinum. Ég legg áherslu á að ég er auðvitað ekki að mæla með því að við hverfum frá hinum hefðbundna rithætti. Þetta er hins vegar forvitnilegt dæmi um það hvernig skert gagnsæi orða, ásamt óskýrum eða breyttum framburði, getur valdið því að málnotendur fari að skynja þau á nýjan hátt. Stundum leiðir þessi breytta skynjun til málbreytingar, en í þessu tilviki eru dæmin (enn) of fá til að hægt sé að tala um breytingu.