Auglýsingaherferð VIRK
Í svari starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK við gagnrýni á auglýsingaherferð sjóðsins segir m.a.: „Tökuorðið „kombakk“ […] hefur unnið sér sess í heimi lista, einkum tónlistar, íþrótta og stjórnendamenningar. Um það vitna dæmi sem koma upp þegar leitað er að orðinu á netinu, bæði í fjölmiðlum og á óformlegri stöðum á borð við bloggsíður og samfélagsmiðla.“ „Orðið Kombakk hefur í þessu samhengi yfirtóna eftirvæntingar, ólíkt hinu miklu hlutlausara orði „endurkoma“ […].“ „Ákvörðunin um að nota kombakk sem yfirskrift þessarar mikilvægu vitundarvakningar var tekin að vel athuguðu máli […].“ „Lagið Back To Life (However do you want me) styrkir þessa tilfinningu, eins og tónlist er ævinlega ætlað að gera.“
Ég svaraði og sagði: „Takk fyrir svarið, sem olli mér samt miklum vonbrigðum og bendir til að þið áttið ykkur ekki á alvarleik málsins og hversu slæmt fordæmi þið eruð að gefa með þessari herferð. Ég ber virðingu fyrir því mikilvæga starfi sem VIRK vinnur, en þeim mun sárgrætilegra finnst mér að það skuli auglýst undir enskum formerkjum. Það er alveg rétt að kombakk hefur lengi verið notað í íslensku, en fyrst og fremst í óformlegu máli. Ég hef ekkert á móti tökuorðum en þegar til eru ágæt íslensk orð í sömu merkingu er æskilegt að halda sig við þau. Það kann að vera rétt að kombakk höfði betur til fólks en endurkoma þótt ég efist stórlega um það – ég sé ekki betur en orðið endurkoma sé oftast notað í jákvæðu samhengi, ekkert síður en kombakk.
Það alvarlegasta er þó að meginboðskapur auglýsingarinnar, Back to life, back to reality, er á ensku. Fyrir utan að það er álitamál hvort það standist lög finnst mér það algerlega forkastanlegt. Ég trúi ekki öðru en þið áttið ykkur á því þegar þið hugsið málið hvað þið eruð að gera með þessu. Ef við göngumst inn á það að enska sé heppilegri en íslenska í einhverju samhengi þótt verið sé að höfða til Íslendinga erum við að opna flóðgátt sem ómögulegt verður að loka. Við erum með því að gera lítið úr íslenskunni, tala hana niður, segja að hún dugi ekki – við erum að kveða upp dauðadóm yfir henni. Ég trúi ekki að það sé vilji aðstandenda VIRK að gera það og skora enn og aftur á ykkur að endurskoða þessa auglýsingaherferð.“