Ein trefj
Í frægu atriði Radíusbræðra, Davíðs Þórs Jónssonar og Steins Ármanns Magnússonar, leika þeir sér að því að búa til eintölu með því að klippa fleirtöluendingu aftan af orðum og fá þannig út óvenjulegar eða ótækar myndir. Sum orðin eru ekki til í eintölu í venjulegu máli – trefjar sem verður *trefj í eintölu, menjar sem verður *menj og fornminjar sem verður *fornminj. Út frá fleirtölunni klyfjar búa þeir til eintöluna *klyfj í stað venjulegu myndarinnar klyf, og einnig búa þeir til eintöluna *fenj í stað fen út frá þágufalli fleirtölu fenjum. Frá merkingarlegu sjónarmiði er ekkert því til fyrirstöðu að nota þessi orð í eintölu en hljóðskipunarreglur málsins valda því að eintölumyndir með j eru vafasamar ef ekki ótækar með öllu.
Ýmis orð í málinu hafa j í sumum beygingarmyndum en ekki öðrum. Af karlkynsorðum má nefna her og beður sem eru herjum og beðjum í þágufalli fleirtölu, af kvenkynsorðum skel og nyt, í fleirtölu skeljar og nytjar, og af hvorugkynsorðum ber og engi, í þágufalli fleirtölu berjum og engjum. Þessi orð hafa upphaflega j í stofni en það fellur hins vegar brott við ákveðnar aðstæður – einkum í enda orðs (við segjum ekki *herj, *skelj, *nytj, *berj heldur her, skel, nyt, ber) og á undan samhljóðum (við segjum ekki *herjs, *beðjs, *berjs heldur hers, beðs, bers). Auk þess fellur j brott á undan nefnifallsendingunni -ur (við segjum ekki *beðjur heldur beður) vegna þess að hún var áður -r. Ástæðan fyrir brottfalli j er hljóðfræðileg sérstaða þess.
Í fornu máli var j svokallað hálfsérhljóð – óatkvæðisbært hljóð, eins konar millistig milli sérhljóðs og samhljóðs. Í nútímamáli er það yfirleitt flokkað sem samhljóð en þó er oft lítill munur á því og sérhljóðinu í. Vegna hljóðfræðilegs eðlis síns verður j alltaf að hafa sérhljóð næst sér, annaðhvort á undan eða eftir. Í myndum eins og *herj, *herjs o.s.frv. er sú krafa ekki uppfyllt og því hlýtur j að falla brott. Beygingarending sem hefst á sérhljóði bjargar hins vegar málinu – í myndum eins og herjum, skeljar, berjum o.s.frv. fær j sérhljóð endingarinnar næst á eftir sér og helst því í þeim myndum. Í ýmsum orðum hafa þó áhrifsbreytingar riðlað þessu svo að j hefur fallið brott þar sem það gat haldist, eða helst þar sem það hefði átt að falla brott.
Stöku sinnum verða þó til orð sem brjóta þessar reglur, einkum þegar reynt er að búa til nafnorð af sögnum með samhljóð og j í stofni. Eina algenga orðið af því tagi þar sem j er í enda orðs án sérhljóðs við hlið sér er hvorugkynsorðið grenj af sögninni grenja – elsta dæmi um það er frá 17. öld. Fyrir utan grenj er hvorugkynsorðið emj af sögninni emja eina orðið af þessu tagi sem gefið er í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, en við bæði orðin er athugasemd: „Orðið er einkum haft í þágufalli og nefnifalli og þolfalli með greini. Engin dæmi hafa fundist um eignarfall.“ Myndirnar sem þarna eru nefndar hafa allar endingar sem hefjast á sérhljóði – emji, grenji; emjið, grenjið. Í þessum myndum bjargar endingarsérhljóðið því j-inu.
Ef búin væri til eintölumynd eftir fleirtölumyndunum trefjar, menjar og fornminjar ættu þær því að vera *tref, *men og *fornmin frekar en *trefj, *menj og *fornminj. Eins og áður segir væri ekkert við þessar myndir að athuga frá merkingarlegu sjónarmiði – það eru engar merkingarlegar ástæður fyrir því að þessi orð eru ekki til í eintölu og við myndum örugglega venjast þessum eintölumyndum ef þær kæmust í notkun. Það þarf aftur á móti ekki að búa til eintölu af klyfjar og fen því að hún er til í málinu eins og áður segir – en er ekki *klyfj og *fenj, heldur klyf og fen. Orðmyndir þeirra Radíusbræðra eru hins vegar bráðskemmtilegt dæmi um það hvernig hægt er að leika sér að tungumálinu og fá okkur til að hugsa um orð á nýjan hátt.