Að segja ósatt um árás á íslenskuna

Í haust var lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á ýmsum lögum til að bæta stöðu trans fólks. Þar eru meðal annars lagðar til breytingar á lögum um mannanöfn sem ganga eingöngu út á að nota orðið foreldri í stað orðanna faðir og móðir og orðið stórforeldri í stað orðsins afi í texta laganna. Þannig verði fyrsta málsgrein áttundu greinar laganna t.d. „Kenninöfn eru tvenns konar, foreldrisnöfn og ættarnöfn“ í stað „Kenninöfn eru tvenns konar, föður- eða móðurnöfn og ættarnöfn“, og í stað „Hver maður skal kenna sig til föður eða móður nema hann eigi rétt á að bera ættarnafn og kjósi að gera svo“ í annarri málsgrein sömu greinar komi „Hver maður skal kenna sig til foreldris nema hann eigi rétt á að bera ættarnafn og kjósi að gera svo.“

Þessar breytingar eru mikilvæg réttarbót og því dapurlegt að þær skuli rangtúlkaðar í pólitískum tilgangi. Í grein eftir Helgu Dögg Sverrisdóttur frambjóðanda Lýðræðisflokksins í Vísi segir: „Á síðasta löggjafarþingi Íslendinga lögðu fáir þingmenn fram frumvarp til þess að breyta ákveðnum orðum. […] Lýðræðisflokkurinn hafnar svona skemmdarverkum á tungumálinu. Hefðbundin góð og gild orð sem vísa til um hvern ræðir á ekki að breyta. […] Breytingartillagan er aðför að fjölskyldunni og íslenskunni. […] Höfundur frábiður sig að þessi skemmdarverk á íslenskum orðum sem ylja flestum hjörtum haldi áfram. Hvað er yndislegra en að tala um ömmu og afa, langömmu og langafa, móður og föður, frænda og frænku, pilt og stúlku?“

Það er óljóst hvað langafi og langamma, frændi og frænka, hvað þá piltur og stúlka, koma málinu við, en Helga Dögg Sverrisdóttir er þekkt fyrir andstöðu gegn trans fólki og því þarf þetta ekki að koma á óvart – ekki frekar en þau ósannindi hennar að orðið leghafi sé komið inn í lög um þungunarrof og það fyrir tilstilli núverandi heilbrigðisráðherra. Það er hins vegar öllu alvarlegra þegar sjálfur forsætisráðherra landsins stekkur á þennan vagn í færslu á X fyrir nokkrum dögum: „Í dag er pabba og afadagur í leikskólanum. Ég mæti í kaffi sem stoltur afi. Það er ótrúlegt en satt að nokkrir þingmenn vildu breyta kenninöfnum í mannanafnalögum. Ég væri ekki lengur afi heldur foreldri foreldris. Vitleysan ríður ekki við einteyming.“

Umræddar breytingar eru sjálfsagðar og eðlilegar og raunar óhjákvæmilegar til að ákvæði laga um mannanöfn samræmist ákvæðum laga um kynrænt sjálfræði sem leyfa hlutlausa skráningu kyns. En gagnstætt því sem haldið er fram er einungis verið að breyta því hvernig vísað er til foreldra í lögunum – það er ekki verið að gera neina breytingu á kenninöfnunum sjálfum eins og sést vel á því að lagt er til að þriðja málsgrein áttundu greinar orðist svo: „Foreldrisnöfn eru mynduð þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum og millinafni, ef því er að skipta, kemur nafn foreldris í eignarfalli með eða án viðbótarinnar son, dóttir eða bur.“ Það er sem sé áfram hægt að vera Benediktsson og Sverrisdóttir – eða Benediktsbur og Sverrisbur ef fólk vill.

Það er ljóst að forsætisráðherra segir ekki satt þegar hann skrifar að „nokkrir þingmenn vildu breyta kenninöfnum“ – það hefur aldrei verið lagt til. Vitanlega hefur ekki heldur verið lagt til að hrófla við orðinu afi – eða faðir og móðir – og fráleitt að halda því fram. Annaðhvort er lesskilningi forsætisráðherra stórlega ábótavant eða hann fer vísvitandi með rangt mál. Fólk getur haft misjafnar skoðanir á þessum breytingartillögum en þegar um er að ræða réttarbætur til handa jaðarsettum hópi sem á undir högg að sækja er einstaklega ómerkilegt og lágkúrulegt að snúa út úr og beinlínis fara með rangt mál í pólitískum tilgangi. Það er fyrir neðan virðingu forsætisráðherra, jafnvel þótt hann sé í miðri kosningabaráttu.