Fokviðri
Í frétt á mbl.is fyrir nokkrum dögum var sagt „Tjón varð á brú sem er í byggingu fyrir vestan í fokviðrinu í dag.“ Orðið fokviðri er vissulega sjaldgæft og á Facebook-síðu mbl.is bar nokkuð á því að fólk hneykslaðist – talaði um „Óþarfa nýyrði“ og segði „Svo núna á að reka rokið út því það er ekki nógu fínt lengur“. En orðið er ekki nýyrði – elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Paradísarmissi Miltons sem séra Jón Þorláksson þýddi snemma á 19. öld og kom út 1828 – þar er talað um „fljúgandi flíkur / í fokviðri“. Þetta er eina dæmið um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, en orðið er líka í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þar sem það er þýtt 'forrygende Vejr' og í Íslenskri orðabók í merkingunni 'rok, hvassviðri'.
En orðið er vissulega sjaldgæft, a.m.k. á prenti. Ekkert dæmi er um það í Risamálheildinni og á tímarit.is er aðeins eitt dæmi – í grein um séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal eftir Össur Skarphéðinsson í Lesbók Morgunblaðsins 1994 þar sem segir: „Eftir mikið fokviðri í febrúar 1763 orti séra Björn ljóð.“ Hér í hópnum var hins vegar bent á að orðið væri töluvert notað fyrir vestan sem samræmist því að bæði Jón Þorláksson og Össur Skarpéðinsson eru ættaðir að vestan. Þetta er því skemmtilegt dæmi um orð sem hefur lifað í a.m.k. meira en tvær aldir án þess að komast nokkuð að ráði á prent en sýnir jafnframt að það er gott að fletta upp í orðabókum áður en fullyrt er að um nýyrði sé að ræða – hér hefði dugað að fletta upp á málið.is.