Bóndahjón
Í Málvöndunarþættinum var nýlega spurt hvort það væri að „verða málvenja“ að tala um bónda í staðinn fyrir bændur í fleirtölu. Tilefnið var frétt í Vísi þar sem orðið bóndahjón kom nokkrum sinnum fyrir, t.d. í „Hann lýsti akstri sínum ekki sem ógnvænlegum líkt og bóndahjónin gerðu“. Þar sem um er að ræða hjón, karl og konu, mætti vissulega virðast rökréttara að nota þarna eignarfall fleirtölu í fyrri lið samsetningarinnar og segja bændahjón. Hvoruga myndina, bóndahjón eða bændahjón, er þó að finna í Íslenskri orðabók eða Íslenskri nútímamálsorðabók. Aftur á móti er myndin bóndahjón flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 sem sýnir að hún er a.m.k. hundrað ára gömul – bændahjón er þar hins vegar ekki að finna.
Báðar myndirnar eru þó gamlar í málinu og elstu dæmi um þær á tímarit.is frá svipuðum tíma. Í Víkverja 1874 er talað um „einstök heimili, þar sem bóndahjónin væru sérlega vel fallin til að ala upp börn og segja þeim til“ og í Norðlingi 1878 segir: „Mánudaginn 9. júlí seinastl. héldu bændahjónin Klemens Klemensson og Ingibjörg Þorleifsdóttir gullbrúðkaup sitt að Bólstaðarhlíð.“ Síðarnefnda myndin er þó töluvert algengari – um hana eru 400 dæmi á tímarit.is en rúm 230 um þá fyrrnefndu. Í Risamálheildinni er munurinn hlutfallslega minni – 74 dæmi um bóndahjón en 106 um bændahjón. Það er því ljóst að jafnvel þótt myndin bóndahjón teldist „órökrétt“ hefur hún fyrir löngu unnið sér hefð og hlýtur að teljast rétt mál.
En í þessu tilviki þarf samt ekki að vísa til hefðar heldur er myndin bóndahjón fullkomlega eðlileg og rökrétt. Í fyrsta lagi má benda á að í fornu máli var eignarfall fleirtölu af bóndi ekki bænda eins og nú er, heldur bónda – myndin bænda var ekki orðin algeng fyrr en um 1400 eins og ég skrifaði nýlega um. Það er fjarri því að vera einsdæmi að gamlar beygingarmyndir varðveitist í samsettum orðum, og því er ekki óhugsandi að orðið bóndahjón hafi verið myndað áður en breytingin varð og fyrri hluti orðsins sé því í raun eignarfall fleirtölu. Vissulega virðast engin dæmi vera um orðið bóndahjón eldri en frá seinni hluta nítjándu aldar, en þess eru fjölmörg dæmi að orð lifi í málinu í fleiri aldir án þess að komast á pappír – eða skinn.
Líklegast er þó að bónda- sé þarna eignarfall eintölu, en öfugt við það sem gæti virst í fljótu bragði er það fullkomlega eðlileg orðmyndun og í samræmi við málhefð. Fjöldi dæma er um að eignarfall eintölu sé notað í samsetningum þar sem fleirtala væri „rökrétt“. Þetta er einkum algengt í veikum kvenkynsorðum, svo sem stjörnuskoðun, gráfíkjukaka, perutré o.s.frv., en kemur þó einnig fyrir í fjölda annarra tilvika. Nefna má orð eins og landsleikur þar sem ævinlega eru tvö landslið að spila saman og því mætti segja að *landaleikur væri rökréttara orð. Þótt svo geti virst að „rökréttara“ væri að nota fleirtölu í samsetningum með -hjón á það viðmið einfaldlega ekki við þarna – mörg samsett orð eru „órökrétt“ en samt fullkomlega viðurkennd.
En svo er orðið bóndahjón ekki einu sinni „órökrétt“ ef betur er að gáð. Eins og bent var á í umræðum í Málvöndunarþættinum eru orð eins og prestshjón, læknishjón, kaupmannshjón og fleiri slík mjög algeng, þótt talsvert hafi dregið úr tíðni þeirra á seinni árum. Þarna er notuð eintala í fyrri lið, enda hjónin kennd við starf annars þeirra – áður ævinlega karlsins – þau eru ekki bæði prestar, læknar eða kaupmenn. Orðið bóndi var til skamms tíma nær eingöngu notað um karlinn – kona hans var ekki bóndi, heldur húsfreyja. Þess vegna er eintalan í bóndahjón í fullkomnu samræmi við önnur orð af þessu tagi. Vissulega má segja að bændahjón sé í betra samræmi við nútíma hugmyndir og málnotkun, en það þýðir ekki að bóndahjón sé rangt mál.