Fræðsla er betri en fyrirframgefin skoðun
Eins og margsinnis hefur komið fram er þessi hópur ætlaður fyrir umræðu, fræðslu og fyrirspurnir um mál, málfræði og málfar. Ef við rekumst á eitthvað í máli sem er nýtt, ókunnuglegt eða í ósamræmi við það sem við höfum vanist eða verið kennt að væri rétt, þá er auðvitað eðlilegt að við viljum forvitnast eitthvað um það og veltum því fyrir okkur hvort þarna sé um nýyrði að ræða, málbreyting að stinga upp kollinum, málfar sem tíðkist annars staðar á landinu eða í öðrum þjóðfélagshópum en við tilheyrum, leifar úr eldra máli eða fyrnska, fljótfærnis- eða frágangsvilla, eða eitthvað annað. Þessum hópi er ætlað að vera vettvangur fyrir slíkar spurningar – og fjölmargar aðrar – og svör við þeim, eftir því sem kostur er.
En grundvallaratriði er að umræðan á að vera jákvæð. Það þýðir að innlegg og athugasemdir þar sem ekki er verið að spyrjast fyrir heldur gera athugasemdir við málfar, leita staðfestingar á eigin skoðun eða fordómum, segja hvað fari í taugarnar á fyrirspyrjanda eða gefa sér að eitthvað sé rangt eiga ekki erindi hingað inn. Efnisatriðin sem um er að ræða í slíkum innleggjum geta oft átt rétt á sér, en framsetningin ekki. Stundum hef ég eytt innleggjum af þessu tagi vegna andans í þeim en tekið samt fyrir það atriði sem um var rætt. Sumum finnst þetta kannski einstrengingsleg afstaða en ég trúi því einlæglega að það sé hægt – og nauðsynlegt – að ræða íslenskt mál á jákvæðum nótum, án þess að hnýta í málnotkun annarra.
Þess vegna bið ég ykkur að hafa þetta í huga. Hikið ekki við að vekja hér máls á hvers kyns atriðum í máli og málfari sem vekja áhuga ykkar eða forvitni, en gerið það án fyrirframgefinnar afstöðu, til dæmis í formi spurninga. Þegar ég svara spurningum eða skrifa fræðandi pistla um málfar reyni ég að skoða málið frá öllum hliðum þannig að lesendur geti sjálfir myndað sér skoðun. Stundum segi ég mína skoðun á því hvað sé rétt, og stundum gengur hún í berhögg við það sem vanalega hefur verið kennt – en ég ætlast ekkert til þess að öllum falli niðurstaða mín í geð. Meginatriðið er að fólk fái forsendur til að taka sjálfstæða afstöðu í stað þess að halda dauðahaldi í það sem hefur verið kennt, án þess að hafa nokkur rök fyrir því.