Posted on Færðu inn athugasemd

Hvítabirnir og ísbirnir

Spendýrið ursus maritimus heitir á íslensku ýmist hvítabjörn eða ísbjörn – síðarnefnda orðið er komið af isbjørn í dönsku. Í viðtali í Fréttablaðinu 2011 segir Ævar Petersen dýrafræðingur: „Hvítabjörn er þekkt í íslensku að minnsta kosti frá 12. öld en ísbjörn kom fyrst fram í rituðu máli snemma á 19. öld og var í raun lítið sem ekkert notað fyrr en á 20. öld. Orðið bjarndýr var mikið notað á 19. öld um hvítabirni en það er núna yfirleitt haft sem almennt heiti yfir birni – hvíta, brúna og svarta.“ Það er rétt að elsta dæmi um ísbjörn er frá 1827, en allt frá því í lok nítjándu aldar hefur það verið mun algengara orð en hvítabjörn. Á tímarit.is eru rúm níu þúsund dæmi um fyrrnefnda orðið en tæp tvö þúsund og tvö hundruð um það síðarnefnda.

Þótt orðið ísbjörn eigi sér hliðstæðu í dönsku og sé sniðið eftir henni er það eftir sem áður vitanlega íslenskt orð – báðir orðhlutarnir, ís og björn, eru íslenskir. Merkingarleg tengsl orðhlutanna eru hliðstæð við tengslin í orðinu skógarbjörn sem kemur fyrir í fornu máli og engum dettur í hug að gera athugasemdir við – í báðum tilvikum er dýrið kennt við búsvæði sitt, ís eða skóg. Vegna þess að hvítabjörn kemur fyrir í fornu máli en ísbjörn er mun yngra í málinu finnst mörgum samt æskilegra að nota fyrrnefnda orðið, og það er í sjálfu sér ekkert við því að segja. Hins vegar ætti það að vera liðin tíð að orð mynduð úr íslensku hráefni sem falla fullkomlega að málinu séu litin hornauga og látin gjalda þess að eiga sér hliðstæðu í dönsku.

Posted on Færðu inn athugasemd

„Back to life, back to reality“

Starfsendurhæfingarsjóðurinn VIRK rekur nú auglýsingaherferð undir kjörorðinu „Er þinn vinnustaður klár í kombakk?“. Í frétt um herferðina segir: „Kyninningarherferðin [svo] hverfist um hugtakið „Kombakk“. Hjartað í herferðinni er […] hljómsveitin Retro Stefson, sem hefur gert sína útgáfu af sígildum danssmelli, Back to Life með Soul II Soul í tilefni af Kombakk-herferðinni.“ Sett hefur verið upp síðan kombakk.is þar sem textinn „Back to life, back to reality“ úr áðurnefndu lagi rúllar sífellt og gerðar hafa verið sjónvarpsauglýsingar með laginu sem eru að megninu á ensku – þessi texti sunginn hvað eftir annað en sáralítil íslenska er í auglýsingunum. Það er ljóst að meginboðskapur auglýsinganna á að felast í þessum enska texta.

Ljóst er að markhópur auglýsinganna er aðallega Íslendingar og því álitamál hvort þær samrýmast ákvæðum 6. greinar Laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 þar sem segir: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ En óháð því hvort þetta stenst lög eða ekki er þetta algerlega ótækt og til háborinnar skammar. Þarna er verið að höfða til Íslendinga með því að gera enskunni hátt undir höfði. Þetta er þeim mun alvarlegra sem aðstandendur VIRK eru m.a. ríki og sveitarfélög en í 5. grein Laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011 segir: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“

Hvernig í ósköpunum stendur á því að íslensk samtök, sem m.a. opinberir aðilar standa að auk samtaka launafólks og atvinnurekenda, velja herferð sinni og vefsíðu enskt kjörorð og heiti? Hvernig í ósköpunum stendur á því að þessi samtök velja að koma boðskapnum fyrst og fremst á framfæri með texta á ensku? Hvernig í ósköpunum stendur á því að við látum þetta yfir okkur ganga? Það er ekki hægt að kalla þetta annað en fullkomna vanvirðingu við íslenskuna og íslenskan almenning. Það er ekki eins og það sé eitthvað flókið að finna íslenska samsvörun við kombakk, og fyrst verið er að kosta upp á að fá hljómsveit til liðs við herferðina hefði verið nær að fá hana til að semja nýjan íslenskan texta frekar en grafa upp 35 ára gamalt lag á ensku.

Íslenskan á í vök að verjast gagnvart ásókn ensku á öllum sviðum – enskunotkun í samfélaginu fer sívaxandi vegna mikils fjölda fólks af erlendum uppruna sem hér býr og starfar og vegna umfangs ferðaþjónustunnar þar sem enska er aðalmálið. Stafræn áhrif enskunnar gegnum netið, samfélagsmiðla, efnis- og streymisveitur o.fl. eru líka gífurlega mikil. Þess vegna kemur það úr hörðustu átt þegar samtök eins og VIRK leggja sitt af mörkum til að veikja varnir íslenskunnar með fullkomlega óþarfri, ástæðulausri og kjánalegri enskunotkun. Ég vonast til að VIRK sjái sóma sinn í því að breyta kjörorði herferðarinnar og heiti vefsíðunnar – og taka úr birtingu auglýsingar sem eru aðallega á ensku og gera auglýsingar á íslensku í staðinn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Endurvinnsla orða: tómthússkattur

Í húsnæðisstefnu Samfylkingarinnar fyrir væntanlegar Alþingiskosningar segir: „Heimilum sveitarfélögum að leggja svokallaðan tómthússkatt á tómar íbúðir.“ Þótt orðið tómthússkattur sé nýtt í málinu er ekki hægt að segja annað en það sé mjög gagnsætt, en hins vegar getur það truflað fólk að orðið tómthús er fyrir í málinu í allt annarri merkingu, 'bú sem hefur hvorki jörð né skepnur, þurrabúð' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók – þar sem það er að vísu merkt „gamalt“. Orðið er aðallega þekkt í samsetningunni tómthúsmaður sem er skýrt 'sjómaður eða daglaunamaður í verstöð eða kauptúni sem hefur ekki afnot af jörð, þurrabúðarmaður' í Íslenskri nútímamálsorðabók – og einnig merkt þar „gamalt“.

Ég er almennt séð hlynntur því að endurnýta orð sem hafa lokið hlutverki sínu í fyrri merkingu. Um þetta eru ýmis dæmi í málinu, þekktust líklega sími sem merkti 'þráður' í fornu máli og skjár sem áður merkti 'gegnsæ himna í glugga, notuð í stað rúðu'. Nýlegt dæmi er svo bur sem áður var karlkynsorð og merkti 'sonur' en var nýlega gert að hvorugkynsorði í merkingunni 'afkvæmi til að nota í kenninöfnum. Vissulega hefur slík endurnýting stundum mætt andstöðu –Helgi Hálfdanarson skrifaði t.d. grein sem hét „Orð á glapstigum“ gegn hinni nýju merkingu orðsins skjár, og ýmsar athugasemdir voru líka gerðar við breytinguna á orðinu bur, enda þótt það hafi áður verið bundið við skáldamál og sennilega aldrei verið hluti af daglegu máli.

Þótt orðin tómthús, tómthúsmaður og tómthúsbýli séu sjaldgæf í nútímamáli, og ekki notuð nema í sögulegu samhengi, eru þau vissulega ekki alveg horfin úr málinu. Því má spyrja hvort réttlætanlegt sé að taka upp orðið tómthússkattur þar sem fyrri hlutinn er sameiginlegur eldri orðunum en tengist þeim ekki merkingarlega. Þetta er vissulega álitamál, en í mínum huga snýst það fyrst og fremst um það hvort líklegt sé að þetta geti valdið misskilningi – gæti fólk sem lærir nýja orðið en þekkir ekki þau gömlu misskilið þau ef það rekst á þau í textum? Ég held ekki – ég sé ekki að hægt sé að fá nokkra merkingu, rétta eða ranga, í gömlu orðin út frá því nýja og fólk muni því fletta þeim upp í orðabókum eins og það hefði þurft að gera hvort eð er.

Posted on Færðu inn athugasemd

Framburður erlendra heita í íslensku

Mér finnst ég taka eftir því að framburður ýmissa erlendra staðaheita hafi breyst í seinni tíð. Heiti ríkjanna California og Pennsylvania í Bandaríkjunum voru í mínu ungdæmi oftast aðlöguð íslenskum framburðarreglum – borin fram með áherslu á fyrsta atkvæði og það fyrrnefnda með innskots-d á milli r og n, -rdn­- (eins og í lýsingarorðinu forn) og það síðarnefnda með a í -van-. Nú heyri ég æ oftar að framburður þessara heita er að nálgast ameríska framburðinn – sambandið -rn- í Kalifornía er borið fram án d-innskotsins (eins og í samsetningunni hor-nös) og Pennsylvanía er borið fram með ei í stað a, Pennsylveinía. Bæði heitin eru líka oft borin fram með aðaláherslu á þriðja atkvæði, KaliFORnía og PennsylVEInía.

Þetta er auðvitað ekkert óvænt eða óeðlilegt. Áður fyrr heyrðu Íslendingar þessi heiti mjög sjaldan, eins og aðra útlensku, og framburður þeirra tók því oftast mið af ritmyndinni. En með auknum kynnum okkar af erlendum málum – fyrst með kvikmyndum og sjónvarpi, síðar með neti, ferðalögum og ferðafólki – heyrir fólk þessi heiti mjög oft með sínum ameríska framburði, og mjög skiljanlegt að það taki hann upp. Það er samt líka skiljanlegt að þeim sem hafa alist upp við ritmálsframburð þessara heita bregði við breyttan framburð þeirra og telji að þar sé um óæskileg ensk áhrif að ræða, enda sé þarna verið að bregða út af hefð. Mér finnst samt engin ástæða til að amast við þessu, en hins vegar er þetta angi af miklu stærra máli.

Skylt þessu er framburður ýmissa erlendra skammstafana. Skammstöfun enska heitisins Union of European Football Associations, eða Samband evrópskra knattspyrnusamtaka, er UEFA og farið með hana sem orð sem borið er fram eitthvað í átt við eifa. Þessi framburður er einnig iðulega notaður í íslensku og það hefur oft verið gagnrýnt. Það kæmi til greina að nota íslenska skammstöfun, SEKS, og bera hana annaðhvort fram sem orð eða hvern bókstaf fyrir sig. En íslenskt heiti sambandsins á sér enga hefð, öfugt við t.d. European Union, EUEvrópusambandið, skammstafað ESB. Það væri hægt að bera þetta fram u-e-f-a– en er það eitthvað betra? Þetta er bara eins og hvert annað enskt heiti sem er látið halda sínum framburði.

En þetta snýst ekki bara um framburð enskra heita og orða. Vegna þess hversu áberandi enskan er í umhverfi okkar er algengt að hún hafi áhrif á framburð okkar á heitum og orðum úr öðrum tungumálum – í Málvöndunarþættinum hefur þetta stundum verið kallað „Rídsjard Wogner-heilkennið“. Það má vissulega gagnrýna þetta en það kemur hins vegar íslensku sáralítið við – segir ekkert um kunnáttu í íslensku heldur sýnir fremur þekkingarskort á umræðuefninu og öðrum erlendum tungumálum en ensku. Þetta er á sinn hátt alveg sambærilegt við þann ritmálsframburð sem Íslendingar notuðu yfirleitt á erlend heiti áður fyrr – framburðurinn miðast við þá fyrirmynd sem við höfum, sem áður var ritmálið en nú enskur framburður.

Það er auðvitað hægt að hafa þá skoðun að öll erlend orð sem notuð eru í íslensku samhengi, hvort sem það eru mannanöfn, staðaheiti eða annað, eigi að laga að íslenskum framburðarreglum – ekki nota í þeim nein hljóð, hljóðasambönd eða áherslumynstur nema þau sem komi fyrir í íslensku. Ég veit samt ekki um fólk sem hafi þessa skoðun enda væri hún fullkomlega óraunhæf – alveg jafn óraunhæf og sú skoðun sem ég veit ekki heldur til að hafi verið sett fram, að við eigum alltaf að bera öll erlend orð fram eins og þau eru borin fram í upprunamálinu. Þarna verður að fara einhvern milliveg og oft er tilviljun hvernig sá millivegur verður, en óneitanlega mótast hann oft af því að leiðin til okkar liggur iðulega í gegnum ensku.

Posted on Færðu inn athugasemd

19% – eða hvað?

Í nýlegri skýrslu OECD um innflytjendur á Íslandi kemur fram að hlutfall þeirra innflytjenda sem telja sig vera fullfæra eða sæmilega færa í landsmálinu er lægra á Íslandi en í öllum öðrum löndum OECD – aðeins 19%. Í nýlegri grein í Vísi var þetta borið saman við um 95% í Portúgal, 85% í Ungverjalandi og tæp 80% á Spáni. Þar er vissulega sláandi munur, en nærtækara væri að bera Ísland saman við önnur Norðurlönd. Hlutfallið er tæp 45% í Finnlandi, tæp 50% í Danmörku, rúm 55% í Noregi og rúm 60% í Svíþjóð – meðaltal OECD er rétt tæp 60%. Þetta er ekki óeðlilegur munur í ljósi þess að í Noregi og Finnlandi er varið um fjórum sinnum meira opinberu fé á mann í tungumálakennslu innflytjenda og í Danmörku allt að tíu sinnum meira.

En hugsanlegt er að annað bætist við sem auki enn á þennan mun. Tölur um málakunnáttu eru ekki byggðar á neins konar samræmdum prófum, heldur á sjálfsmati innflytjenda eins og áður er nefnt („respondents who considered their Icelandic to be either “fluent” or “advanced”“). Þá má spyrja á hverju innflytjendur byggi mat sitt á eigin íslenskufærni. Það hlýtur að byggjast að einhverju leyti á reynslu þeirra, og fólks í kringum þá, af því að nota íslensku og viðbrögðum Íslendinga þegar þeir reyna að tala málið. Eins og hér hefur margoft verið nefnt skortir okkur þolinmæði gagnvart „ófullkominni“ íslensku, svo sem erlendum hreim, röngum beygingum og óvenjulegri orðaröð, og skiptum iðulega yfir í ensku ef viðmælandinn talar ekki kórrétt.

Vegna þessa er ekki ótrúlegt, þótt ekki sé hægt að fullyrða neitt um það, að margir innflytjendur meti íslenskukunnáttu sína lægra en ella – þótt þeir tali íslensku að einhverju marki finna þeir að Íslendingum finnst íslenskan þeirra ófullnægjandi og telja þá jafnvel alls ekki tala málið. Hugsanlegt er að innflytjendur í öðrum OECD-löndum, með sambærilega kunnáttu í tungumálum þeirra landa, mæti öðru viðmóti og meti þar af leiðandi kunnáttu sína hærra. Um þetta er ekkert hægt að fullyrða en viðbrögð Íslendinga gagnvart „ófullkominni“ íslensku eru þekkt og gefa ástæðu til að velta þessu fyrir sér. Þetta þyrfti vitanlega að rannsaka áður en farið er að tala um „það grátlega litla hlutfall útlendinga sem sér ástæðu til að læra íslensku“.

Það er ljóst að hvatinn til að læra íslensku hlýtur alltaf að verða minni en hvatinn til að læra tungumál stórþjóða, einfaldlega vegna þess að íslenska nýtist hvergi nema á Íslandi, og því er ekki líklegt að fólk vilji verja tíma og fé í íslenskunám nema það ætli sér að vera hér til frambúðar. Við það ráðum við ekki, en allt hitt sem veldur því að of fáir innflytjendur læra íslensku getum við ráðið við – ef við bara viljum. Við getum sett miklu meira fé í kennslu íslensku sem annars máls, við getum breytt hugarfari okkar og viðbrögðum gagnvart „ófullkominni“ íslensku, og við getum hætt að haga okkur eins og það sé allt í lagi að enska sé notuð við ýmsar aðstæður. Allt eru þetta Íslendingavandamál, ekki útlendingavandamál.