Íþróttamaður ársins
Í síðustu viku var tilkynnt um niðurstöður í kjöri Samtaka íþróttafréttamanna á íþróttamanni ársins. Stundum hefur titillinn verið gagnrýndur á þeim forsendum að hann sé of karllægur vegna þess að orðið maður og samsetningar af því tengist karlmönnum meira en konum í huga margra. Þetta var m.a. til umræðu hér í hópnum fyrir tveimur árum og þá birti einn hópverja svar stjórnarmanns í Samtökum íþróttafréttamanna við bréfi um þetta mál. Stjórnarmaðurinn sagði „alveg rétt að þetta mætti vera betur í takt við tímann“ og „við munum taka þetta fyrir á næsta aðalfundi hjá okkur í vor með það í huga að breyta þessu“. Mér er ekki kunnugt um hvort tillaga um breytingu kom fram, en hafi svo verið hefur henni greinlega verið hafnað.
Vitanlega er það rétt sem oft er bent á að þótt orðið maður vísi oft til karla hefur það líka almenna merkingu – vísar til tegundarinnar sem við erum öll af, karlar, konur og kvár. En það breytir því ekki að orðið hefur oft karllæga slagsíðu, ekki síst þegar það er notað um tiltekinn einstakling eins og í tilviki íþróttamanns ársins. Þetta kom vel fram í kynningu á þeim tíu sem fengu flest atkvæði í kjörinu. Í þeim hópi voru fjórir karlar og sex konur. Karlarnir voru allir kynntir með samsetningu af -maður – knattspyrnumaður (tveir), handknattleiksmaður, sundmaður. Konurnar voru hins vegar allar kynntar með samsetningu af -kona – knattspyrnukona (tvær), fimleikakona, sundkona, lyftingakona, kraftlyftingakona.
Þetta er fullkomlega eðlilegt og mér hefði fundist mjög óeðlilegt og hljóma undarlega ef t.d. hefði verið talað um Ástu Kristinsdóttur fimleikamann eða Sóleyju Margréti Jónsdóttur kraftlyftingamann. Þess vegna hljómar óneitanlega svolítið sérkennilega að tala um Íþróttamann ársins, Glódísi Perlu Viggósdóttur knattspyrnukonu – en vitanlega hefði samt ekki gengið að kalla hana Íþróttakonu ársins. En Íþróttamaður ársins hefur verið kjörinn í nærri sjötíu ár og það er auðvitað ekki einfalt að breyta þessum titli, enda ekki augljóst hvað ætti að koma í staðinn – hugsanlega íþróttamanneskja, með vísun til þess að Rás tvö í Ríkisútvarpinu hefur undanfarin ár valið manneskju ársins í stað manns ársins eins og áður var.
Óvíst er þó að því orði yrði vel tekið – í áðurnefndu bréfi sagðist stjórnarmaður í Samtökum íþróttafréttamanna „ekki hrifinn af orðinu manneskja“ og fyndist það „bara ljótt“, en hins vegar væri hægt að finna „eitthvað annað hlutlaust“, til dæmis íþróttahetja. Orðið íþróttamanneskja hefur þó eitthvað verið notað í sambærilegum titlum, t.d. hefur „íþróttamanneskja ársins“ verið kosin nokkur undanfarin ár í Borgarbyggð og Strandabyggð, og nú hafa Fjarðabyggð og Akranes bæst í hópinn og e.t.v. fleiri sveitarfélög. Hugsanlegt er að þessi notkun breiðist út þótt mér finnist orðið íþróttamanneskja ekki að öllu leyti heppilegt. Ég tel samt æskilegt að reynt verði að finna titil sem ekki er jafn karllægur og íþróttamaður ársins óneitanlega er.