Fámennur kúastofn
Um daginn var hér spurt hvort til væri lýsingarorð sambærilegt við fámennur „sem nær yfir aðrar tegundir en mannskepnuna?“. Fyrirspyrjanda fannst til dæmis fámennur kúastofn ekki hljóma gáfulega, enda er rótin -menn- í seinni hluta orðsins sú sama og í orðinu maður og fámennur er skýrt 'með fáu fólki' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það má samt finna dæmi um að fámennur stofn sé notað um annað en fólk. Í Þjóðviljanum 1965 segir t.d.: „þó þykir það alltaf nokkrum tíðindum sæta ef ernir sjást utan varpstöðvanna sökum þess hve fámennur stofninn er orðinn.“ Í Degi 1994 segir: „Ríkið veitir geitaeigendum styrk til að halda um 200 geitur í landinu en skyldleikaræktun skapar vandamál í svo fámennum stofni.“
Þótt þessi dæmi hljómi kannski óeðlilega í eyrum flestra eru þau í raun hliðstæð þeirri þróun sem hefur orðið í fjölda samsettra orða sem hafa slitnað að meira eða minna leyti frá uppruna sínum. Hér hefur oft verið tekið dæmi af orðinu eldhús sem er ekki lengur sérstakt hús (og oft ekki einu sinni sérstakt herbergi) og þar sem yfirleitt brennur ekki lengur eldur – orðið merkir bara 'staður þar sem matseld fer fram'. Það má alveg hugsa sér og er ekki ólíklegt að fámennur fari smátt og smátt að merkja 'með fáum einstaklingum' í stað 'með fáu fólki' og þessir einstaklingar geti verið bæði fólk og dýr, og jafnvel hlutir. Slík þróun væri hvorki einsdæmi né óeðlileg á nokkurn hátt, heldur dæmigerð fyrir það hvernig merking orða breytist iðulega.
Í umræðum var nefnt að hugsanlegt væri að tala um fáliðaðan kúastofn og þótt fáliðaður sé vissulega skýrt 'sem hefur fáa menn‘' í Íslenskri nútímamálsorðabók eru þess mörg dæmi að talað sé um fáliðaðan stofn ýmissa dýrategunda. Í umræðu um rjúpuna í Samvinnunni 1948 segir t.d. „sjálfsagt að vernda þann fáliðaða stofn, sem eftir var“. Í Tímanum 1950 segir um sama efni: „við vildum stuðla að því, að sá fáliðaði stofn, sem eftir var, fengi að vaxa upp sem fyrst.“ Í Morgunblaðinu 1973 segir: „Lífið í þýzku skógunum varð þessum fáliðaða stofni þvottabjarna sannkölluð paradís.“ Í Náttúrufræðingnum 2013 segir: „Skýringin á því er líklega nátengd fátæklegri fánu og tiltölulega fáliðuðum stofnum villtra spendýra.“
Í fornu máli eru orðin fámennur og fáliðaður ekki notuð um hópa, heldur um konunga eða aðra höfðingja og vísa til herafla þeirra – „Hergeir konungur var fáliðaður“ segir t.d. í einu handriti Hálfdanar sögu Eysteinssonar en í öðru handriti segir „Hergeir konungur var fámennur“. Það er ljóst að fáliðaður er komið lengra frá uppruna sínum en fámennur en síðarnefnda orðið er þó farið að fjarlægjast upprunann nokkuð ef vel er að gáð. Það er t.d. mjög algengt að tala um fámennan hóp fólks eða fámennan hóp manna en í raun og veru ætti fámennan hóp að vera nóg ef merkingin 'maður' er innifalin í fámennur. Tíðni sambandanna fámennur hópur fólks / manna bendir til þess að tengslin við maður séu eitthvað farin að dofna í huga málnotenda.