Notum viðeigandi málsnið

Í gær var hér spurt hvort orðalagið hvert er besta lagið með … og hvað er besta lagið með … væri jafngilt. Fyrirspyrjandi sagðist hafa fengið ábendingu um að það fyrrnefnda væri réttara, en sér fyndist það einhvern veginn stífara. Í umræðum kom líka fram hjá ýmsum að þeim hefði verið kennt að nota hvert í þessu samhengi, og í Málfarsbankanum segir vissulega: „Frekar skyldi segja hvert er (vanda)málið en „hvað er (vanda)málið“.“ Fornafnið hver, sem getur bæði verið spurnarfornafn og óákveðið fornafn, hefur þá sérstöðu að af því eru til tvær mismunandi myndir í nefnifalli og þolfalli eintölu í hvorugkyni, hvert og hvað, sem hafa með sér ákveðna verkaskiptingu. Sama gildir um samsetningarnar einhver og sérhver.

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir um verkaskiptingu myndanna hvert og hvað: „Í hvorugkyni eintölu er orðmyndin hvert notuð hliðstætt, þ.e. með nafnorði: Þetta veit hvert barn. Orðmyndin hvað er notuð sérstætt: Heyrðirðu hvað hann sagði?“ Við þetta má bæta því að þegar spurnarfornafnið tekur með sér fornafn eða nafnorð í eignarfalli er notuð myndin hvert hvert þeirra / barnanna gerði þetta?, ekki *hvað þeirra / barnanna gerði þetta?. Þetta er óumdeilt og ekkert flökt á notkun myndanna í slíkum tilvikum svo að ég viti. En í dæmum eins og hvert / hvað er besta lagið með … stendur spurnarfornafnið ekki beinlínis hliðstætt með nafnorðinu lagið þótt það vísi vissulega til þess – sögnin kemur þarna á milli.

Þess vegna er ekkert óeðlilegt að sérstæða myndin hvað sé oft notuð í slíkum setningum, enda er það raunin. Svo að vitnað sé í dæmi Málfarsbankans eru rúmlega 8.700 dæmi um hvað er málið? í Risamálheildinni en aðeins 33 um hvert er málið?. Gífurleg aukning varð í notkun sambandsins hvað er málið? upp úr síðustu aldamótum og þess vegna mætti halda því fram að það sé fast (tísku)orðasamband og ekki marktækt í þessu sambandi. Hlutföllin milli hvað er vandamálið? og hvert er vandamálið? eru líka vissulega miklu jafnari, en þó eru um 390 dæmi um fyrrnefnda sambandið en 150 um það síðarnefnda. Það er því enginn vafi á því að sambönd þar sem hvað er notað í samböndum eins og hvað er besta lagið eru góð og gild íslenska.

Það táknar ekki að ábending Málfarsbankans, eða það sem fólki hefur verið kennt, sé rangt. Það er vissulega rétt að hvert er besta lagið er formlegra en hvað er besta lagið, eins og fyrirspyrjandi nefndi, og hæfir því betur við ákveðnar aðstæður, í ákveðnu samhengi. En við aðrar aðstæður og í öðru samhengi á betur við að segja hvað er besta lagið. Þetta snýst sem sé ekki um „rétt“ eða „rangt“, heldur um málsnið – að nota það orðalag sem er við hæfi hverju sinni. Það er því miður mjög algengt að fólk líti svo á – fyrir áhrif kennslu og málfarsleiðbeininga – að formlegt málsnið sé hin eina rétta íslenska en óformlegt málsnið sé rangt. Þannig er það alls ekki – vandað mál felst ekki síst í því að nota viðeigandi málsnið.