Eiríkur vandar smellibeitum ekki kveðjurnar
Sumir íslenskir vefmiðlar gera út á smellibeitur – setja fram fyrirsagnir sem eru til þess ætlaðar að fá lesendur til að smella á þær og auka þannig umferð um vefinn svo að hann verði fýsilegri fyrir auglýsendur. Í þessum fyrirsögnum er oft gert mun meira en efni standa til úr smávægilegum ágreiningi eða málefnalegri gagnrýni. Ég þekki það vel því að sjálfur hef ég nokkrum sinnum nýst þessum miðlum, í fyrirsögnum eins og „Eiríkur æfur“, „Eiríkur skammar …“, „Eiríkur hirtir …“, „Eiríkur húðskammar …“, „Frægir hnakkrífast …“ o.fl. Ég man hins vegar ekki eftir því að sagt hafi verið í fyrirsögn að ég vandaði einhverjum ekki kveðjurnar en það er þó einhver algengasti orðaleppurinn í fyrirsögnum af þessu tagi.
Í Hugvekjum séra Vigfúsar Erlendssonar frá seinni hluta 18. aldar kemur fyrir sambandið að hún vandi þér betri kveðjurnar en elsta dæmi sem ég finn á tímarit.is um sambandið vanda ekki kveðjurnar er í Gjallarhorni 1905: „Einar ritstj. Hjörleifsson velti sér yfir Ólafsvíkur læknirinn í 20. tbl. »Fj.konunnar« og vandar honum ekki kveðjurnar.“ Næsta dæmi er í Nýjum kvöldvökum 1918: „Og því var það engin furða, í okkar augum, þó við vönduðum henni ekki kveðjurnar, þegar hún rak okkur úr þessum sælustað.“ Annars er sambandið frekar sjaldgæft fram um 1950, en þó er það einkum þegar nálgast aldamótin að tíðni þess fer að aukast, og á árunum 2000-2009 er það meira en fjórum sinnum algengara á tímarit.is en tveimur áratugum áður.
Sambandið vanda <honum> ekki kveðjurnar er skýrt 'láta illa af honum, tala illa um hann' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'tala ómjúkum orðum til e-s, skamma e-n' í Íslenskri orðabók. Þetta rímar við skilning minn á sambandinu – mér finnst það vera nokkuð sterkt og fela í sér harkalega árás á þá sem um er rætt. Ég sé ekki betur en það stemmi líka við notkun sambandsins í eldri dæmum, og mér finnst mjög óeðlilegt að nota það um málefnalega gagnrýni sem beinist að málflutningi fólks en ekki persónu þess – sem er þó iðulega gert í fyrirsögnum vefmiðla. Það er óheppilegt þegar orð og orðasambönd eru gengisfelld á þennan hátt og fólki gerð upp afstaða sem það hefur ekki. Smellibeitur eru hvorki málefnalegri umræðu né íslenskunni til hagsbóta.