„Heimsmet í ófullnægjandi árangri aðfluttra“
Ég sé að hinn nýkjörni alþingismaður Snorri Másson gerði stöðu íslenskrar tungu að umræðuefni í jómfrúrræðu sinni á Alþingi í dag. Það er góðra gjalda vert, en framsetningin var þó með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að gera athugasemd við hana. Hann sagði nefnilega: „Hér á Íslandi hefur á undanförnum árum verið slegið heimsmet í ófullnægjandi árangri aðfluttra við að læra tungumálið í heimalandi. Aðeins 18% hafa tileinkað sér tungumálið hér á meðan samanburðarlönd státa flest af hátt í 60% árangri í sama flokki.“ Þarna er vísað í skýrslu OECD síðan í haust sem ég hef áður fjallað hér um og um þessar tölur mætti margt segja og ýmsa fyrirvara þarf að hafa á samanburði af þessu tagi eins og ég hef bent á.
Látum samt svo heita að sinni að þessar tölur séu sambærilegar, en það sem vakti helst athygli mína var orðalagið „heimsmet í ófullnægjandi árangri aðfluttra“. Þarna er allri skuldinni skellt á innflytjendur – það eru þeir sem eru skussar við að læra íslensku. En í raun hefði verið miklu nær að segja „Hér á Íslandi hefur á undanförnum árum verið slegið heimsmet í ófullnægjandi frammistöðu stjórnvalda við að kenna aðfluttum tungumál þjóðarinnar.“ Í áðurnefndri skýrslu OECD kemur nefnilega fram að í Noregi og Finnlandi er varið um fjórum sinnum meira opinberu fé í tungumálakennslu hvers innflytjanda og í Danmörku allt að tíu sinnum meira. Þetta eru væntanlega þau samanburðarlönd sem Snorri vísaði til í ræðu sinni.
Þegar tekið er tillit til þessa munar er vitanlega ekki óeðlilegt að hlutfall þeirra innflytjenda sem telja sig hafa sæmilega færni í íslensku (vera „fluent“ eða „advanced“ í sjálfsmati) sé mun lægra á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Það er ekki ólíklegt að neikvætt viðhorf Íslendinga til erlends hreims og ófullkominna beyginga valdi því að innflytjendur meti eigin kunnáttu lægra en vera myndi ef hér ríkti umburðarlyndi gagnvart þessum atriðum. Við það bætist að samsetning hópsins er með öðrum hætti hér en víða annars staðar – í mörgum Evrópulöndum er verulegur hluti innflytjenda fólk sem á sér skyld mál að móðurmáli og það auðveldar þeim vitaskuld málanámið. Um þetta er samt erfitt að fullyrða nokkuð.
Það er hárrétt hjá Snorra Mássyni að staðan í íslenskukunnáttu innflytjenda er óviðunandi og vitanlega er ekki óeðlilegt að ætlast til að þeir leitist við að læra málið. En það er hins vegar bæði ósanngjarnt og rangt að gera innflytjendurna sjálfa að blórabögglum og kenna þeim einum um „ófullnægjandi árangur“ í íslenskunámi. Slík framsetning þjónar fyrst og fremst pólitískum markmiðum en ekki íslenskunni og er síst til þess fallin að auka áhuga innflytjenda á íslenskunámi. Það er öllum í hag, bæði Íslendingum og innflytjendum – og ekki síst íslenskunni sjálfri – að auka íslenskukunnáttu innflytjenda og við ættum að sameinast um að bæta þar úr, í stað þess að nota íslenskuna til að kynda undir útlendingaandúð eins og þarna var gert.