Rökkrin

Í færslu hér fyrr í dag var bent á að nafnorðið rökkur, sem venjulega er aðeins haft í eintölu og ekki gefið upp í fleirtölu í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, kæmi fyrir í fleirtölu á fleiri en einum stað í Rökkuróperunni eftir Þórberg Þórðarson – þar segir t.d. „Við lékum okkur oft í rökkrunum“. Málshefjandi sagði af þessu tilefni að það væri kannski rétt „að fara varlega í að fullyrða að fleirtalan sé ekki til þótt hún sé sjaldan notuð“ og er óhætt að taka undir það. Eins og hér hefur oftsinnis verið nefnt geta mjög mörg orð sem oftast hafa eingöngu verið notuð í eintölu fengið fleirtölu ef merkingin hliðrast aðeins til og þau fara að geta merkt eintak eða tegund af því sem um er rætt, auk hinnar óhlutstæðu merkingar sem þau hafa flest.

Nokkur dæmi eru um fleirtölumyndir orðsins rökkur í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, eitt það elsta úr Píslarsögu séra Jóns Magnússonar frá seinni hluta 17. aldar: „Ljós logaði í hverju húsi, sem nokkrir menn voru, rökkra á milli.“ Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862 segir: „muni hann […] hafa lagt sig fyrir, svo sem vandi hans var til í rökkrum.“ Á tímarit.is eru hátt í 300 dæmi um fleirtölumyndirnar, það elsta í Fjölni 1835: „Enn voru þeir, sem vörðu rökkrunum til að færa í letur eða frásagnir hvað hinir höfðust að.“ Í þýðingu eftir Steingrím Thorsteinsson í Kirkjublaðinu 1894 segir: „eg reikaði út í rökkrum.“ Í Óðni 1912 segir: „Eru mjer enn í barnsminni rökkrin, þegar Siggeir gekk um gólf í húsinu sínu.“

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er rökkur skýrt 'hálfmyrkur, tíminn þegar rökkur er (kvöld)' með notkunardæminu við komum heim í rökkri. Í þessari merkingu fær orðið ekki fleirtölu, en í fleirtöludæmunum hér að framan hefur það fremur merkinguna 'rökkurstund' – það orð er reyndar líka til þótt það sé ekki algengt. Þetta rímar við það að í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 segir að með greini geti rökkrið merkt 'Mørkningstiden paa Landet om Vinteren, inden vaka begynder' – í Íslenskri orðabók segir: '(til sveita á vetrum) tíminn á undan vökunni' – en vaka er 'tíminn frá því kveikt er þar til háttað er'. Þarna er sem sé vísað til tiltekins tímaskeiðs og engin ástæða til að amast við því, eða notkun fleirtölu í þeirri merkingu.