Þorkeli eða Þorkatli?

Um daginn var hér spurt hvort fólk kysi fremur að nota myndina Þorkeli eða Þorkatli sem þágufall af karlmannsnafninu Þorkell. Fyrirspyrjandi sagðist vita að hvort tveggja væri talið rétt en vildi forvitnast um smekk fólks og tilfinningu fyrir þessu. Svörin voru á ýmsa vegu – mörgum fannst Þorkatli „sannarlega fallegra“ og „svipmeira“ en öðrum fannst það „svolítið tilgerðarlegt“, „nokkuð hátíðlegt“, „pínulítið snobbað“, „eitthvað hallærislegt“ og jafnvel „hljóma beinlínis undarlega“. En sumum fannst Þorkeli „hafa barnalegri hljóm“ og jafnvel „innst inni eitthvað rangt“. Bent var á að í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru báðar myndirnar gefnar og ekki gert upp á milli þeirra enda báðar algengar í málinu.

Seinni liður nafnsins, sem einnig kemur fyrir í nöfnunum Arnkell, Áskell, Hrafnkell og fleiri, er kominn af nafnorðinu ketill – það er ekkert óeðlilegt að sérhljóð falli brott í áherslulausu atkvæði og -ketill verði -kell í samsetningum. Í nafninu Ketill einu og sér ber seinna atkvæðið aftur á móti meiri áherslu og því fellur i ekki brott þar. Frumhljóð stofnsins er a sem breytist í e með i-hljóðvarpi (katil- > ketil-) nema í þágufallinu -katli þar sem i fellur brott eftir almennum reglum málsins vegna þess að beygingarendingin hefst á sérhljóði, sbr. depil+i > depli, jökul+i > jökli, hamar+i > hamri o.s.frv. Þess vegna fáum við í fornu máli beyginguna Þorkell (< Þorketill) – Þorkel (< Þorketil) – Þorkatli Þorkels (< Þorketils).

Í orðum með svipuðum víxlum er aftur á móti rík tilhneiging til að samræma stofnmyndir og útrýma óreglu. Orðið lykill beygðist t.d. lykil lykil lukli lykils og í fleirtölu luklar lukla luklum lukla vegna þess að i féll brott úr viðskeytinu -il- á undan sérhljóðsendingu (lukil+i > lukli í þágufalli eintölu) og i-hljóðvarpið u > y varð því ekki þar. En þegar í fornu mál er y oft haldið í allri beygingunni og lykli haft í stað lukli í þágufalli eintölu og lyklar í stað luklar í nefnifalli fleirtölu. Venjuleg þágufallsmynd mannsnafnsins Egill var líka Egli fram á tuttugustu öld en var útrýmt – í Islandsk Grammatik frá 1922 segir Valtýr Guðmundsson að Egill beygist „i Skriftsprog undertiden“ eins og Ketill – þ.e., þágufallið Agli sé stundum notað í ritmáli.

Það er því engin furða að tilhneiging hafi verið til að gera beygingu nafna eins og Þorkell reglulega og losna við hina óreglulegu mynd Þorkatli. Það er engin nýjung – í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld segir Björn Karel Þórólfsson: „Frá því um 1300 fer þágufall á keli að verða algengt […] og er í Möðruvallabók miklu algengara en gamla myndin […]“ – en Möðruvallabók er talin skrifuð um miðja 14. öld. Samkvæmt tímarit.is eru þágufallsmyndir með -keli mun algengari en myndir með -katli af öllum þeim nöfnum sem um er að ræða – síðarnefndu myndirnar virðast raunar hafa verið mjög sjaldgæfar fram um 1930 en aukin tíðni þeirra eftir það stafar sennilega af (misskilinni) málvöndun og fyrnsku.