Þú átt tvö skilaboð

Fyrr í dag var hér spurt hvort orðið skilríki væri til í eintölu og vísað í skilaboð frá Þjóðskrá: „Það er okkur sönn ánægja að segja þér að þú getur sótt skilríkið þitt“. Eins og ég hef skrifað um er skilríki ekki síður notað í eintölu en fleirtölu í eldra máli þótt merkingin sé eilítið önnur, en þótt orðið hafi yfirleitt eingöngu verið haft í fleirtölu í seinni tíð er eintölunotkunin aftur orðin algeng og engin ástæða til að amast við henni. En í umræðum um þetta var spurt hvort einhver dæmi væru um að orðið skilaboð væri notað í eintölu – eins og skilríki er það yfirleitt eingöngu gefið upp í fleirtölu í orðabókum og eingöngu fleirtölubeyging er sýnd í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Þetta er þó að breytast, a.m.k. í óformlegu málsniði.

Örfá gömul dæmi má finna um að skilaboð sé notað í eintölu. Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Samt sem áður gafst honum færi á því að senda tvö skilaboð.“ Í Vísi 1925 segir: „Hver ert þú, og hvaða sönnun hefirðu fyrir því, að trúa megi skilaboði þínu?“ Í Morgunblaðinu 1932 segir: „Þessu skilaboði er hjer með komið á framfæri.“ Í Lindinni 1943 segir: „ég hélt, að Guð sjálfur hefði sett þetta skilaboð þarna.“ Í Friðarboðinn og vinarkveðjur 1943 segir: „á miðilsfundi […] kom fram spíritisti og bað til skilaboðs til Jóh. Kr. Jóhannessonar.“ Í Vikunni 1944 segir: „Það getur auðvitað verið, að Ralph Paton, hafi sent skilaboðið.“ Í Vísi 1949 segir: „„Guði sé lof,“ sagði hann í einu skilaboðinu.“ Í Alþýðublaðinu 1959 segir: „Það eru þrjú skilaboð til þín.“

Þetta virðist hafa farið að breytast með tilkomu símboða og síðar talhólfa, smáskilaboða og annarrar nýrrar samskiptatækni. Í „Reglugerð um boðtæki fyrir hið almenna boðkerfi Póst- og símamálastofnunar“ sem Samgönguráðuneytið gaf út 1989 segir: „Í talnaboðtækinu á að vera hægt að geyma a.m.k. tvö skilaboð t.d. tvö skilaboð 12 tákna löng.“ Í Degi 2000 segir: „Þá notum við SMS skilaboðið eða talhólfið til að koma á milli skilaboðum um hvern eigi að sækja hvert, hvenær.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Fyrir Frelsis-viðskiptavini kostar 15 krónur að senda SMS en fyrstu þrjú skilaboð dagsins eru ókeypis.“ Í sama blaði sama ár segir: „Þá kostar 10 krónur að senda SMS-skilaboð en að taka við SMS-skilaboði kostar ekkert.“

Í pistlum Eiðs Guðnasonar, Molar um málfar og miðla, birtist árið 2014 bréf frá Birni Jóni Bragasyni þar sem hann gerði athugasemdir við breytingu sem hefði orðið á talhólfi Símans. Þar hefði áður verið sagt þú átt ein talskilaboð, tvenn talskilaboð, þrenn talskilaboð, fern talskilaboð o.s.frv., en þessu hefði þá nýlega verið breytt í þú átt ein skilaboð, tvö skilaboð, þrjú skilaboð, fjögur skilaboð. Björn Jón sagði síðan: „Mér þykir þessi breyting með hreinum ólíkindum. Hjá fyrirtækinu virðast menn hafa skilið áður að orðið skilaboð er fleirtöluorð og ekki hægt að tala um ,,eitt skilaboð“, svo dæmi sé tekið, en einhverra hluta vegna ákveðið að breyta þessu.“ Eiður kvaðst vona að Síminn sæi sóma sinn í að breyta þessu til fyrra horfs.

Notkun eintölunnar virðist þó hafa farið mjög vaxandi á síðustu tíu árum en það er athyglisvert að fleirtalan virðist mun frekar notuð með tölunni einn en öðrum beygjanlegum töluorðum, rétt eins og í áðurnefndu dæmi frá Símanum. Þannig eru í Risamálheildinni 223 dæmi um ein skilaboð en 49 um eitt skilaboð, en á hinn bóginn 66 dæmi um tvenn skilaboð en 49 um tvö skilaboð, 24 um þrenn skilaboð en 21 um þrjú skilaboð, og 10 um fern skilaboð en 15 um fjögur skilaboð. Meginhluti dæmanna er af samfélagsmiðlum og það er því ljóst að eintalan skilaboð skilaboði skilaboðs er orðin mjög algeng í óformlegu máli. Engin ástæða er til að amast við henni – þetta er orð sem merkingarlegar forsendur eru fyrir að nota bæði í eintölu og fleirtölu.