Posted on Færðu inn athugasemd

Vörum okkur á órökstuddum kreddum

Á langri ævi hefur síast inn í mig mikill fjöldi boðorða og reglna um hvað sé talið rétt og vandað mál. Sumt af þessu lærði ég í skóla, annað hef ég lesið, og enn annað hef ég heyrt frá einhverjum sem töldu sig þess umkomin að hafa vit fyrir öðrum. Lengi vel fór ég umhugsunar- og athugasemdalaust eftir þessum boðum, jafnvel löngu eftir að ég hvarf frá strangri málvöndunarstefnu. En í seinni tíð hef ég farið að skoða margt af þessu með gagnrýnum augum og þá kemst ég að því að margt af því er löngu úrelt, annað byggt á hæpnum forsendum, og enn annað átti sér aldrei neina stoð og virðist vera byggt á einhverjum misskilningi eða kreddum einstakra málvanda. Um margt af þessu hef ég skrifað á þessum vettvangi.

Um helgina var ég að lesa bók þar sem mikið var vitnað í blöð frá fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Þar sá ég talað um „fjölda þjóðerna“ og kipptist aðeins við vegna þess að mig rámaði í að þjóðerni væri eitt þeirra orða sem ég hefði einhvern tíma lært að ætti ekki að nota í fleirtölu. Þetta staðfestist þegar ég fletti upp í Málfarsbankanum þar sem segir: „Mælt er með því að að nota orðið þjóðerni sem sjaldnast í fleirtölu. Stundum verður þó ekki komist hjá því eins og í setningunni: 55 manns af 15 þjóðernum.“ Þetta er nokkuð sérkennileg framsetning og slegið úr og í – ekkert kemur fram um ástæður þess að æskilegt sé að forðast fleirtöluna af þjóðerni, en svo tekið fram að stundum sé óhjákvæmilegt að nota hana – og þá væntanlega ekki rangt.

Líklega má rekja þetta til molanna „Gætum tungunnar“ sem svonefnd „Áhugasamtök um íslenskt mál“, sem Helgi Hálfdanarson stóð á bak við, birtu í dagblöðum á árunum 1982-1983. Í einum slíkum mola sem birtist í Morgunblaðinu 1983 segir: „Sagt var: Þar búa menn af ýmsum þjóðernum. Rétt væri: … menn af ýmsu þjóðerni.“ Engin rök eru færð fyrir þessu, fremur en flestu öðru í umræddum molum. En þegar molunum var safnað saman í kverið Gætum tungunnar árið 1984 hafði orðalaginu verið breytt – þar segir ekki lengur „Rétt væri“ heldur „Sumir segja fremur“. Það er vitanlega grundvallarbreyting – þar með er þetta ekki lengur spurning um „rétt“ eða „rangt“, heldur um smekk og ekkert við það að athuga.

Elstu dæmi um orðið þjóðerni á tímarit.is og í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru frá því á fyrri hluta 19. aldar og elstu dæmi um fleirtölumyndir þess litlu yngri. Í Skírni 1842 segir: „En er Noregur aptur komst undan Dönum 1814 og varð ríki útaf fyrir sig, hlutu þjóðernin aptur að taka til að aðskiljast“. Í Skírni 1865 segir: „Þar sem eitt fylki deilist milli þjóðerna, bryddir jafnan á áskilnaði í flestum málum.“ Í Gefn 1871 segir: „lög og landsdeiling raska ekki þjóðernunum.“ Í Tímariti hins íslenzka bókmentafélags 1880 segir: „þar er áþekkur munur og á þjóðernum sömu kynkvíslar.“ Í Skírni 1885 segir: „Hinir vilja efla sjerveldið, eð[a] sjálfsforræði landanna og með því löghelga jafnrjetti allra þjóðernanna.“

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er þjóðerni gefið athugasemdalaust bæði í eintölu og fleirtölu, og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er fleirtalan einnig gefin athugasemdalaust. Í Íslenskri orðabók er orðið aftur á móti eingöngu gefið í eintölu. Það er því að sjá að einhvern tíma um miðja tuttugustu öld hafi orðið til sú kredda að þetta orð væri „ekki til í fleirtölu“. Ég hef hvergi fundið neinn rökstuðning fyrir þeirri kreddu og átta mig ekki á því á hverju hún byggist. En þetta er eitt af mörgum dæmum um það sem ég nefndi í upphafi – kredda sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum kemst á flot og hver éta síðan upp eftir öðrum, og verður að boðorði um hvað sé „rétt“ og hvað „rangt“.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.