Henni elnar sóttin

Nýlega skrifaði ég um orðalagið daglegar ónáðir sem var notað í frétt á mbl.is og vakti athygli ýmissa, og komst að þeirri niðurstöðu að þessi notkun myndarinnar ónáðir styddist við gamla hefð og ætti fullan rétt á sér. En þetta er ekki það eina í umræddri frétt sem hefur verið til umræðu í málfarsþáttum. Fyrirsögn fréttarinnar var „Mette-Marit elnar sóttin“ og upphafssetningin „Norsku krónprinsessunni Mette-Marit hefur elnað lungnasóttin sem hana hrjáir“. Sögnin elna er vissulega sjaldgæf en þó gömul í málinu og merkir 'vaxa, aukast'. Sum þeirra sem tóku þátt í umræðu um þetta könnuðust ekkert við sambandið elna sóttin en önnur sögðust eingöngu þekkja það um léttasótt – þegar kona væri að því komin að fæða.

Sögnin kemur fyrir í fornu máli og þá alltaf í sambandinu elna sótt, ýmist í merkingunni 'verða veikari' eða 'nálgast fæðingu'. „En er sóttist hafið, þá elnaði sótt á hendur Kveld-Úlfi“ segir í Egils sögu Skallagrímssonar og „Nú elnar Lofthænu sótt, og hún varð léttari að sveinbarni“ segir í Örvar-Odds sögu. Sögnin virðist alla tíð einkum hafa verið notuð í þessu sambandi þótt stöku dæmi megi finna um hana í öðru samhengi – „Síldarafli virtist vera að elna“ segir í Þjóðólfi 1885, „skilnaðarhugsunin er þó farin að elna síðasta árið“ segir í Árvakri 1914, „hlýtur siðleysið að elna í óeirðunum“ segir í Snorra Sturlusyni eftir Sigurð Nordal. En í venjulegu nútímamáli eru varla dæmi um sögnina í öðru sambandi en elna sóttin (eða sjúkdómurinn).

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er gerður munur á sótt í merkingunni 'sjúkdómur' (Sygdom) og í sérhæfðu merkingunni 'hitasótt' (Feber) og dæmið honum elnaði sóttin er að finna við seinni merkinguna. Það kemur heim og saman við að sambandið virðist yfirleitt hafa verið notað um frekar bráð og skammvinn veikindi. Í Skírni 1833 segir: „sóttin elnaði, og konúngr lá fleiri dægr í andarslitrunum.“ Í Iðunni 1886 segir: „Um nóttina eptir varð hún veik, og tvo hina næstu daga elnaði sótt hennar, og andaðist hún á þriðja degi.“ Í Ísafold 1891 segir: „Sótt hans elnaði brátt og andaðist hann tveim dögum síðar.“ Í Íslandi 1898 segir: „Á laugardaginn var hann orðinu veikur, og elnaði sóttin því meir sem á daginn leið.“

Vissulega eru þó dæmi um annað, einkum í textum frá síðustu árum. Í hæstaréttardómi frá 2014 segir: „astmasjúkdómur sem hann hefði um langt skeið glímt við hefði elnað meðan hann starfaði við skólann.“ Í Húnahorninu 2020 segir: „En því þyngra hefir honum verið á einverustundum þau árin er honum elnaði sjúkdómurinn hægt og hægt en jafnt og þétt.“ Í grein á Wikipediu segir: „Astmasjúklingum getur elnað sóttin.“ Þetta eru þó undantekningar – yfirleitt hefur sambandið elna sóttin ekki verið notað um langvinna sjúkdóma eins og lungnatrefjun sem hrjáir norsku krónprinsessuna og hefur gert síðan 2018. Notkun sambandsins í umræddri frétt verður kannski ekki talin röng en þó má segja að hún sé ekki í fullu samræmi við málhefð.