Karlar og kona handteknir
Í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í morgun segir: „Handtóku konuna í gærkvöld: Alls sjö handteknir.“ Þetta er athyglisverð fyrirsögn í ljósi þess að Ríkisútvarpið hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að vilja útrýma karlkyni í kynhlutlausri merkingu – sem er reyndar della. Þarna er hins vegar notuð karlkynsmyndin handteknir enda þótt fram komi í setningunni á undan að kona sé meðal hinna handteknu. Í hefðbundinni íslensku væri því eðlilegt að nota hvorugkynsmyndina handtekin þarna vegna þess að vitað er að hópurinn er blandaður. Hins vegar er eðlilegt í hefðbundnu máli að nota karlkyn ef kynjasamsetning hópsins er óþekkt, og vitanlega ef eingöngu er um karlmenn að ræða. Hvorugu er til að dreifa í þessu tilviki.
Nú veit ég auðvitað ekki hver skýringin er á því að þarna er notað karlkyn og vel má vera að það sé bara fljótfærnisvilla sem ástæðulaust sé að leggja dýpri merkingu í. Samt læðist að manni sá grunur að margtuggin gagnrýni á kynhlutlausa notkun hvorugkyns spili þarna inn í – fréttafólk sé orðið hvekkt og farið að forðast að nota hvorugkyn jafnvel þar sem það væri eðlilegt í hefðbundnu máli. Það er vel þekkt að leiðréttingar geta leitt til ofvöndunar – ruglað málnotendur í ríminu og leitt til þess að þeir noti rangar myndir í viðleitni til að koma til móts við leiðréttingar og gagnrýni. En hver sem ástæðan er í þessu tilviki er ljóst að það er í raun rangt mál að nota þarna karlkyn, miðað við hefðbundna íslensku.