Sótt

Nýlega var ég að skrifa um sambandið elna sóttin sem er frekar sjaldgæft í nútímamáli og væntanlega bundið við ritmál. Orðið sótt er líka sagt „gamaldags“ í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem það er annars vegar skýrt 'sjúkdómur, veikindi' og hins vegar 'fæðingarhríðir, jóðsótt' og þetta rímar við það sem fram kom í umræðum um sambandið elna sóttin. Það rifjaðist hins vegar upp fyrir mér að í mínu ungdæmi þekkti ég orðið vel en aðeins í merkingunni 'niðurgangur'. Þessa merkingu heyrði ég eingöngu á heimilinu, enda kannski ekki mikið rætt um niðurgang á opinberum vettvangi eða í almennu spjalli utan heimilis. En ég hef ekki heyrt eða séð orðið notað í þessari merkingu í meira en sextíu ár.

Ég fór því að velta fyrir mér hvort þessi merking væri þekkt eða hvort þetta hefðu bara verið einhvers konar skrauthvörf sem aðeins hefðu verið notuð á mínu heimili – slíkt er vel þekkt. En svo reyndist ekki vera, heldur er þessi merking gefin í ýmsum orðabókum. Orðið sótt er t.d. skýrt 'sjúkleiki, veiki, hitaveiki; niðurgangur' í Íslenskri orðsifjabók, og ein skýring orðsins í Íslenskri orðabók er 'þunnur saur, niðurgangur'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er ein skýring orðsins '(niðurgangur) Diarré, tynd Afføring (hos Kreaturer, is. Faar)'. Af þessu er svo að sjá sem orðið sé eingöngu notað um skepnur, einkum sauðfé. Þessi merking kemur glöggt fram í ýmsum gömlum dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

„A vorum er þad tídt, ad magurt saudfje fær svo kallada Sýki eda Sótt, hvar af þad vanmegnast og deyr“ segir í Klausturpóstinum 1819. „sótt kálfa stillir opt krít nidurskafin til muna í mjólk þeirra“ segir í Klausturpóstinum 1820. „Vid þá lengri rófu á spønsku fé vill loda saur, þegar sótt fær“ segir í Klausturpóstinum 1825. „Neðan til í Árnes sýslu, þar sem fé gengur í sölvafjöru og fær jafnaðarlega sótt“ segir í Nýjum félagsritum 1852. „Hin eiginlega „sótt“ er afrás skaðlegra óhreininda þarmanna“ segir í Búnaðarriti 1893. „Niðurgangur sem einnig er nefndur sótt“ segir í Dýralækningabók Magnúsar Einarssonar frá 1931. „Hann hefur fengið svo mikla sótt, að hún rennur niður af honum eins og lækjarvatn“ segir um hest í Grímu hinni nýju.

Engin dæmi eru í Ritmálssafni um að sótt í þessari merkingu sé notað um fólk, og í fljótu bragði finn ég engin örugg dæmi á tímarit.is. Samhengisins vegna gæti þó verið um þessa merkingu að ræða í Heilbrigðisskýrslum 1897: „Veikin yfirleitt mjög væg; byrjaði á sumum með hálsbólgu, á sumum með sótt og uppköstum.“ Þarna gæti merkingin þó einnig verið 'sótthiti'. Í ljósi þess hve húsdýr léku stórt hlutverk í daglegu lífi fólks áður fyrr er þó ekkert óeðlilegt að orðafar um dýr færist yfir á fólk, og hvorki í Íslenskri orðsifjabók Íslenskri orðabók er tekið fram að þessi notkun orðsins sé bundin við skepnur. Ég geri þess vegna ráð fyrir því að notkun þess um fólk hafi ekki eingöngu tíðkast á æskuheimili mínu heldur verið sæmilega þekkt.