Er neikvætt að sýna skilning og umburðarlyndi?
Á Alþingi í dag lagði Snorri Másson þá spurningu fyrir menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra hvort hann teldi að „það væri eðlilegt skref að lögfesta stöðu ensku og pólsku sem opinberra mála í landinu“. Tilefnið voru orð ráðherra í umræðum á þingi fyrir nokkrum dögum: „Það er rétt að hér eru fleiri en áður sem tala ekki íslensku sem fyrsta mál a.m.k. og þeim veruleika verðum við einfaldlega að mæta af skilningi og umburðarlyndi og búa okkur undir það að þannig muni veröldin breytast.“ Snorri virðist telja ámælisvert að „enska og pólska séu af Stjórnarráðinu, af hálfu skólayfirvalda, í ríkismiðlinum og víða annars staðar hjá hinu opinbera notaðar, ekki til jafns við íslenskuna en til hliðar við íslenskuna í verulegum mæli“.
Við megum ekki gleyma því að langflest þeirra sem koma til landsins eru hingað komin að okkar ósk og frumkvæði – ýmist ferðafólk eða fólk sem kemur til að vinna í greinum þar sem skortur er á innlendu vinnuafli. Það er ekki bara kurteisi við þetta fólk að veita því aðgang að ýmsum upplýsingum á tungumáli sem það skilur – það er líka mikilvægt öryggisatriði í landi þar sem margvísleg náttúruvá getur dunið á. En ekki síður er það mikilvægt til að fólk sem býr hér eigi þess kost að fylgjast með umræðu um hvers kyns þjóðfélagsmál. Innflytjendur borga hér skatta og margir þeirra hafa hér kosningarétt og ótækt að stór hópur fólks sé útilokaður frá allri þátttöku í lýðræðislegri umræðu – það er beinlínis stórhættulegt lýðræðinu.
Vitanlega viljum við að þau sem koma hingað til að setjast að læri málið, og verðum að gera miklu meira til að auðvelda þeim það. En það er alvarlegur misskilningur ef litið er svo á að eðlileg þjónusta við fólk sem ekki kann íslensku grafi undan íslenskunni á einhvern hátt. Þvert á móti – það er mun líklegra að fólk sem er komið til móts við á þann hátt verði jákvæðara gagnvart íslensku og íslensku samfélagi. Það erum ekki síst við sjálf sem gröfum undan íslenskunni með því að nota hana ekki þar sem kostur er. En það er ekki í þágu íslenskunnar að amast við öðrum tungumálum, hvað þá að beina því „til stofnana samfélagsins að forðast alla notkun útlensku í lengstu lög“ eins og Snorri Másson hvatti ráðherra til að gera.
Það er eðlilegt og óhjákvæmilegt að önnur tungumál en íslenska, einkum enska og pólska, séu stundum notuð í íslensku samfélagi, en það er fráleitt að ýja að því að eðlileg afleiðing þess sé að þau verði gerð hér opinber tungumál. Í stað þess að amast við notkun erlendra mála eigum við að leitast við að draga úr þörf fyrir hana, og sjá til þess að íslenska sé alltaf notuð þar sem þess er kostur. En við eigum ekki að nota íslenskuna til að útiloka fólk – við eigum að nota hana til að bjóða fólk velkomið. Við eigum að berjast fyrir íslenskunni eftir mætti, en á jákvæðan hátt. Tungumál eru mikilvæg, en fólkið sem talar þau er mikilvægara, og það er dapurlegt þegar það er orðið neikvætt að vilja sýna fólki skilning og umburðarlyndi.