Tálmun
Í Málvöndunarþættinum sá ég að fólk var að velta fyrir sér hvort orðið tálmun hefði „einhverja sérstaka merkingu“ eða merkti það sama og hindrun. Sagnirnar tálma og hindra eru skýrðar hvor með annarri í Íslenskri orðsifjabók og í Íslenskri orðbók og Íslenskri nútímamálsorðabók er nafnorðið tálmun skýrt 'það að tálma e-ð, hindrun'. Það er þó ljóst að orðin hafa lengi haft dálítið mismunandi notkunarsvið – tálmun er formlegra og er fremur notað í lagalegri merkingu. Í 73. grein Stjórnarskrár segir t.d.: „Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.“ Einnig er iðulega talað um tálmun á atvinnurétti, tálmun á skoðanafrelsi, tálmun á upplýsingarétti, tálmun á trúfrelsi, tálmun á umferð o.fl.
Svo virðist sem tálmun sé fremur notað þegar hindrunum er beitt á meðvitaðan hátt þótt vissulega sé einnig hægt að nota hindrun í þeirri merkingu. En í seinni tíð er orðið tálmun oftast notað í merkingunni 'koma í veg fyrir umgengni foreldris við barn'. Þessi merking er ekki nefnd sérstaklega í orðabókum og virðist hafa þróast smátt og smátt á undanförnum áratugum. Hana má líklega rekja til Barnalaga nr. 9/1981 þar sem segir: „Nú torveldar það foreldri, sem hefir forsjá barns, að hitt fái að umgangast barnið, og getur dómsmálaráðuneytið þá knúið það að viðlögðum allt að 20000 króna dagsektum, er renni til ríkissjóðs, til að láta af tálmunum.“ Þarna er ljóst af því sem á undan er komið að „tálmunum“ merkir 'tálmunum á umgengni'.
Framan af virðist orðið tálmun líka yfirleitt hafa verið notað í nábýli við orðið umgengni. Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Okkur er kunnugt um að tillögur séu í undirbúningi hjá dómsmálaráðuneytinu sem feli í sér hertari viðurlög við tálmun á umgengni.“ Í grein í Morgunblaðinu 2003 kemur nafnorðið tálmun og sögnin tálma fjórum sinnum fyrir, alltaf í sambandi við nafnorðið umgengni. Í grein í Morgunblaðinu 2004 kemur fyrir samsetningin umgengnistálmun. En í grein í DV 2008 er tálmun notað í þessari merkingu án þess að umgengni sé í setningunni: „þrátt fyrir að börnin hafi verið beitt mjög alvarlegum tálmunum.“ Í sömu grein koma fyrir samsetningar eins og tálmunartímabil og tálmunarferli.
Þarna er ljóst að tengsl orðsins tálmun við orðið umgengni eru að rofna og tálmun eitt og sér er farið að merkja 'tálmun á umgengni'. Þetta kemur líka fram í grein í Tímariti lögfræðinga 2009: „Þegar umgengni liggur niðri til lengri tíma liggja venjulega flóknar og margþættar ástæður þar að baki. Ein af þeim ástæðum er tálmun.“ Vissulega kemur umgengni þarna fyrir í nágrenninu en samt er ljóst að tálmun hefur þarna yfirtekið merkingu sambandsins tálmun á umgengni. Þessi þróun hefur svo haldið áfram og tálmun er nú iðulega notað án þess að umgengni sé nærri. Í mbl.is 2023 segir t.d.: „Hér fær hún spurningu frá manni sem segist hafa orðið fyrir tálmun.“ Í Stundinni 2019 segir: „ég hef í gegnum tíðina verið mjög gagnrýninn á tálmun.“
Þetta er mjög áhugavert dæmi um það hvernig merking orðs úr almennu máli þrengist smátt og smátt og verður sérhæfð – það má segja að almennt orð verði að íðorði þegar tálmun yfirtekur merkingu sambandsins tálmun á umgengni. Vitanlega tengist þetta því að fyrirbærið sem vísað er til er margfalt meira rætt en áður og þess vegna þægilegt að geta vísað til þess með einu orði. Það er alls ekki einsdæmi að merking orða breytist á þennan hátt og orð úr almennu máli verði að íðorðum. Oft fer vel á því, en vissulega getur það stundum leitt til misskilnings ef sérhæfð merking orðsins flækist fyrir almennu merkingunni – eða öfugt. Í flestum tilvikum er samt trúlegt að samhengið dugi fólki til að átta sig á merkingunni.