Að raungerast
Sögnina raungera er að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem hún er skýrð ‘gera e-ð að veruleika’. Sögnin er hins vegar ekki í Íslenskri orðabók enda var hún til skamms tíma frekar sjaldgæf. Elsta dæmi um hana er í Stefni 1931: „þá greinir á um, hver skuli vera grundvöllurinn undir raungerðri kröfu einstaklings um hluta af þeim.“ Í Heimdalli 1933 segir: „að hinar heilbrigðu og réttlátu kröfur þeirra í þessum málum yrðu raungerðar.“ Í Rétti 1937 segir: „Allt í einu trúði hann, að ósk sín væri raungerð.“ Fram um 1970 eru aðeins örfá dæmi um sögnina en þá fjölgar þeim mjög, sérstaklega þó eftir aldamót. Fjölgunina má ekki síst rekja til miðmyndarinnar raungerast sem hefur einkum orðið algeng á síðustu tíu árum eða svo.
Í Málvöndunarþættinum var eimitt sagt nýlega að raungerast væri „einn tískufrasinn“. Það má til sanns vegar færa – yfirgnæfandi hluti dæma um miðmyndina er frá þessari öld, einkum frá síðustu fimm árum. Miðmyndin er ekki sérstök fletta og ekki skýrð sérstaklega í orðabókum en ef til vill væri þó ástæða til þess vegna þess að merking hennar er ekki alveg fyrirsegjanleg út frá germyndinni. Í Málvöndunarþættinum var spurt hver væri munurinn á því að raungerast og bara gerast, eða koma í ljós, en hvorug þeirra orðskýringa er fullnægjandi. Vissulega vísar miðmyndin oftast til þess, eins og germyndin, að eitthvað verði að veruleika, en það skiptir máli að mjög oft er um að ræða eitthvað sem búist hefur verið við eða spáð hefur verið.
Þetta sýna ýmis dæmi. Í Alþýðublaðinu 1974 segir: „Er þar einna merkilegast að finna hve mikið af spásögnum hans hafa þegar raungerst.“ Í Þjóðviljanum 1979 segir: „Það er enginn möguleiki á þvi aö væntingar raungerist ekki.“ Í Þjóðviljanum 1980 segir: „En miðað við þá áherslu sem á þessar kenningar er lögð nú er ekki að efa að þær eiga eftir að raungerast í okkar atvinnuumhverfi.“ Í Morgunblaðinu 1988 segir: „þá er kikkið að sjá það sem maður hafði ímyndað sér raungerast.“ Í Helgarpóstinum 1988 segir: „Það er enginn möguleiki á því að væntingar raungerist ekki.“ Í Velferð 2010 segir: „Snilldarhugmyndin sem raungerðist hefur gefið Hjartaheillum og félögum þess milljónir króna á undanförnum árum.“
Samsettum sögnum hefur farið töluvert fjölgandi í málinu að undanförnu og það er auðvitað ekkert athugavert við miðmyndina raungerast en hins vegar má vitanlega velta því fyrir sér hvernig standi á því að notkun hennar hefur aukist gífurlega á fáum árum. Varla stafar það af því að það sé svo miklu algengara en áður að spár rætist eða væntingar verði að veruleika, heldur hlýtur þessi merking að hafa verið orðuð á annan hátt – væntanlega með einhverjum orðasamböndum því að engin ein sögn nær þessari merkingu nákvæmlega svo að ég viti. Það er svo sem auðvelt að láta það fara í taugarnar á sér þegar notkun einhverra orða eykst stórkostlega og þau verða eins konar tískuorð, en það er samt yfirleitt ósköp meinlaust.