Nýr vettvangur pistla
Eins og margsinnis hefur komið fram er tilgangur þessa hóps að vera vettvangur umræðna um íslenskt mál, málfræði, málfar og málnotkun. Hér er hægt að spyrja um og ræða hvaðeina sem varðar þetta efni, en jafnframt hef ég leitast við að sinna tilganginum með því að skrifa pistla um ýmislegt sem ég tel eiga erindi til fólks. Margir þeirra hafa að geyma hlutlausa fræðslu og fróðleik um ýmis atriði í íslensku máli og málnotkun, en í öðrum er ég að segja mína eigin skoðun á margvíslegum álitamálum. Frá upphafi hópsins fyrir tæpum fimm árum hef ég skrifað hér fjölda pistla af þessu tagi – áður hafði ég skrifað sams konar pistla í Málvöndunarþættinum um eins árs skeið. Pistlarnir eru nú orðnir samtals 1230, hver að meðaltali 400-500 orð.
Það tekur því dálitla stund að lesa hvern pistil og þeir eru misjafnlega auðmeltir þannig að ég býst ekki við að lesendur þeirra hafi verið ýkja margir að jafnaði. Hins vegar hef ég oft fengið góð viðbrögð við þessum pistlum og veit af ýmsum dyggum lesendum sem hafa áhuga á þeim. Aðalatriðið er þó að ég hef sjálfur haft mjög gaman af þessum pistlaskrifum og hef lært einhver býsn á þeim – einkum á því að fjalla um uppruna, sögu, notkun og tilbrigði einstakra orða, orðasambanda og setningagerða. Það bregst ekki að í grúski og pælingum til undirbúnings þessari umfjöllun komist ég að ýmsu sem ég vissi ekki fyrir – og sem í mörgum tilvikum hefur hvergi verið rakið áður svo að ég viti. Ég ætla þess vegna að halda þessum skrifum áfram.
Nú er hins vegar kominn vettvangur sem er að mörgu leyti heppilegri en Facebook sem aldrei var ætlað fyrir langa pistla af þessu tagi. Það er Substack sem fleiri og fleiri eru farin að nýta sér. Þar er hægt að gerast áskrifandi að pistlum og fá þá senda í tölvupósti en jafnframt er hægt að skoða eldri pistla á notandasíðu á Substack eða í sérstöku appi. Ég ætla því að hætta að birta langa pistla hér í hópnum, nema í undantekningartilvikum, en láta nægja að setja hér hlekk á þá á Substack-síðu minni. Þau sem hafa áhuga á þessum pistlum geta þá gerst áskrifendur að þeim og fengið þá í pósti, en þeir munu ekki þvælast fyrir öðrum. Eftir sem áður mun ég halda áfram að svara hér fyrirspurnum og taka þátt í umræðum eftir því sem tilefni gefst til.