Í stórmerku bréfi sem langamma mín sem bjó á Húsavík skrifaði verðandi tengdasyni sínum, afa mínum, fyrir nærri hundrað árum, haustið 1926, segir: „Þú hefur – sem betur fer – aldrei þekt hvað það er að vera öreigi. Það er að eiga ekki nokkurn skapaðann hlut í eigu sinni sem tryggir framtíð manns. Ekki þak yfir höfuðið, ekki blett af landi til að rækta, ekkert nema það sem happ og hending veitir fyrir hvern daginn.“ Það sem mér fannst áhugaverðast í þessu var sambandið happ og hending sem ég hafði ekki séð áður og vissi ekki hvort hefði tíðkast eða hvort langamma hefði búið það til. Þegar ég fór að skoða málið kom í ljós að þetta er ekki einsdæmi þótt sambandið sé vissulega sjaldgæft – ég hef aðeins fundið tíu dæmi um það.
Elsta dæmið á tímarit.is er í kvæði eftir vesturíslenska skáldið Guttorm J. Guttormsson, sem var ættaður úr Múlasýslum, í Heimskringlu 1906: „Sorgin, yndið, happ og hending, / hulin orsök, mönnum dulin“. Annað dæmi úr kvæði eftir Guttorm er í Eimreiðinni 1952: „Fylgi happ og hending æ / hvirfilbyl – en í báðum tilvikum er þetta bundið í stuðla og því e.t.v. ekki alveg marktækt. Í Lögbergi 1924 segir: „Það er ómótmælanlegur sannleikur að allra hygnustu menn láta stundum happ og hending ráða.“ Í ályktun frá fulltrúafundi Kaupfélags Austur-Skaftfellinga í Tímanum 1953 segir: „Þessar póstsendingar eru svo settar í land einhvers staðar á Austfjörðum og ræður þá happ og hending hvenær þær komast hingað.“
Tvö yngstu dæmin á tímarit.is eru úr greinum eftir Ólaf Jónsson í Vísi, það fyrra frá 1971: „Oft er eins og happ og hending ráði því hvort slíkir greinaflokkar takast að nokkru marki.“ Seinna dæmið er frá 1974: „happ og hending ræður jafnan miklu um hvenær „röðin kemur“ að hverjum þeim höfundi sem til álita kemur við verðlaunaveitingu.“ Í svari konu í Suður-Múlasýslu, fæddrar 1918, við spurningaskrá Þjóðminjasafnsins um alifuglarækt árið 1994 segir: „Ekki man ég samt eftir öðru en að það væri happ og hending hvort kynið var í meirihluta.“ Eina dæmið í Risamálheildinni er úr viðtali við bónda í Suðursveit á mbl.is 2011: „En við skildum eftir grímur hjá ferðaþjónustuaðilum líka en þar er happ og hending hvort magn passar við mannfjöldann.“
Tvö af yngstu dæmunum sem ég hef fundið má rekja til Norðfjarðar. Á vefnum Ljóð.is er vísa með yfirskriftinni „Happ og hending“, ort 2009 og eftir karl frá Norðfirði fæddan 1942. Á vefnum 123.is árið 2019 segir karl frá Norðfirði fæddur 1964: „Öllum er ljóst að mikið er í ráðizt, og happ og hending kann að hafa áhrif á rekstur og afkomu þessa skips.“ Langflest þessara dæma má því rekja til Norðaustur-, Austur- og Suðausturlands og er óljóst hvort sambandið happ og hending hefur áður verið þekkt um allt land – a.m.k. hefur það væntanlega alltaf verið sjaldgæft og er nú líklega alveg horfið. Mér finnst þetta skemmtilegt samband og væri gaman að endurvekja það.