Hefð eða nauðung?

Nú hafa nokkrir þingmenn Viðreisnar lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um mannanöfn, þar sem m.a. er gert ráð fyrir almennri heimild til að bera ættarnafn en samkvæmt núgildandi lögum er sú heimild takmörkuð við ákveðna skilgreinda hópa fólks. Í frétt á Vísi í dag er því spáð að fólk myndi í stórhópum leggja niður föður- og móðurnöfn og taka upp ættarnöfn í staðinn ef slíkt yrði leyft. En ég sé í raun engar líkur til þess að svo færi. Stundum er vísað til þess að föðurnöfn hafi horfið í Danmörku og Noregi á stuttum tíma, en slíkar vísanir til ólíkra samfélaga á öðrum tímum hafa takmarkað gildi. Nútímaviðhorf í jafnréttismálum eru t.d. líkleg til að valda því að konur séu ófúsari en áður að taka upp ættarnafn eiginmannsins.

Hér má enn fremur benda á að vegna þess að Íslendingar hafa haldið þeim sið að kenna sig til föður (eða móður) er það ákveðið þjóðareinkenni sem vel má hugsa sér að margir vilji halda í þess vegna, en um slíkt var ekki að ræða í Danmörku og Noregi. Í Færeyjum hefur þróunin á undanförnum árum einmitt verið í þá átt að styrkja færeysk eftirnöfn eins og kom fram í frétt sem birtist nýlega á vef Ríkisútvarpsins: „Milli 2001 og 2015 fækkaði Færeyingum með hið danska -sen í eftirnafni sínu um 1.771. Á sama tíma fjölgaði fólki sem kenndi sig til foreldra sinna og er með annað hvort -son eða -dóttir í eftirnafninu sínu um tæplega fjórtán hundruð.“ Vel má hugsa sér að þróunin á Íslandi yrði sú að styrkja föður- og móðurnafnakerfið.

Í áðurnefndri frétt á Vísi er reglum um ættarnöfn líkt við umferðarlög: „Svo er þetta eins og umferðarlög. Við höfum hérna hægri umferð en það væri ekki gott að hafa bæði vinstri og hægri umferð.“ En þetta er sérlega óheppileg líking. Við höfum nefnilega bæði vinstri og hægri umferð nú þegar. Flest okkar eru skikkuð til að keyra hægra megin en svo er hópur fólks sem keyrir vinstra megin og má það – en mætti líka keyra hægra megin ef það vildi. Það skapar auðvitað margs konar vanda og óánægju sem á endanum vinnur gegn hefðinni. Ég tek heils hugar undir það að kenning til föður eða móður er menningarhefð sem æskilegt er að viðhalda. En hefðir eru lítils virði nema samfélagið þar sem þær gilda hafi áhuga á að halda í þær.

Hér vegur þó þyngst að núgildandi lög standast ekki með nokkru móti jafnræðiskröfur samtímans – og eru raunar að því er best verður séð brot á 65. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir m.a. að allir „skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannrétt­inda án tillits til […] ætternis […]“. Það stenst því ekki að sumum sé leyft það sem öðrum leyfist ekki. Á þetta hefur oft verið bent, t.d. í athugasemdum nefndar sem samdi frumvarp að gildandi mannanafnalögum, og í athugasemdum Íslenskrar málnefndar við það frumvarp. Það er vitanlega ekki verið að „kasta [hefðinni] á glæ“ þótt reglur um upptöku ættarnafna verði rýmkaðar. Hefð sem þarf að viðhalda með lögum er ekki hefð – heldur nauðung.