Gefum sénsinum séns
Nú berast þær gleðifréttir að hið stórmerka átak „Gefum íslensku séns“ sem er upprunnið í Háskólasetri Vestfjarða sé að breiðast út og verði tekið upp í Sveitarfélaginu Árborg. Það er mikið fagnaðarefni, en hefur þó orðið sumum tilefni til að hnýta í heiti átaksins og benda á að séns sé ekki íslenska heldur erlend sletta og betra væri að nota orð eins og möguleiki eða tækifæri. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem ég sé sambærilegar athugasemdir og þær eru svo sem skiljanlegar – við erum flest alin upp við að gjalda varhug við tökuorðum og vissulega hefur oft verið amast við séns sem er sagt „óformlegt“ í síðustu útgáfu Íslenskrar orðabókar en var í fyrri útgáfum bókarinnar merkt með spurningarmerki sem táknar „vont mál“.
Af orðinu eru einnig til afbrigðin sjens og sjans. Það fyrrnefnda er eingöngu ritháttarafbrigði við séns en það síðarnefnda stendur fyrir svolítið annan framburð. Í Íslenskri orðsifjabók segir að orðið sé líklega komið úr chance í ensku en ekki virðist þó ólíklegt að myndin sjans, sem er elst þessara mynda, sé komin úr chance í dönsku sem aftur er sagt komið af chance í frönsku. Þessi mynd bendir til framburðar með a sem samræmist framburði orðsins í dönsku og breskri ensku. Elsta dæmi um sjans er í Glettingi 1924: „Glettingur er að hugsa um að kaupa síldartunnur af norskum síldarskipum sem fiska »fyrir utan«, því það er »sjans« til að fá þær ódýrar.“ Allnokkur dæmi eru um myndina sjans á næstu árum, fram yfir 1940.
Myndin sjens sést fyrst í Vikunni 1941: „hún er á leið í síldina með svefnroða í kinnum, dynjandi músik í eyrunum og ,,sjensinn“ við hliðina.“ Árið eftir kemur myndin séns fyrir í umfjöllun um enskuslettur í Tímanum: „Þó að ég sé „sjúr“ (sure) á því, að það sé enginn „séns“ (chance) að spilla íslenzkunni.“ Þarna er komið fram á stríðsárin og bandaríski herinn kominn til landsins, en í amerískri ensku er chance borið fram með hljóðinu [æ] sem í íslenskum eyrum er nálægt e. Mér finnst því ekki ólíklegt að orðið hafi í raun komið tvisvar inn í málið – fyrst úr dönsku eða hugsanlega breskri ensku á þriðja áratugnum eða fyrr, í myndinni sjans, en svo úr amerískri ensku upp úr 1940, í myndinni séns sem varð fljótlega mun algengari en hin.
Myndin sjans var þó nokkuð notuð fram um 1980 en hefur síðan verið á stöðugri niðurleið og virðist nú vera að hverfa úr málinu – aðeins eru sárafá dæmi um hana í Risamálheildinni. En ef til vill hefur sumum þótt sjans skömminni til skárra en séns. Til þess bendir það sem Guðmundur G. Hagalín segir í ritdómi í Alþýðublaðinu 1949 þar sem hann hneykslast á málfari höfundar nokkurs: „Hann notar sjens – ekki einu sinni sjans.“ En þótt iðulega væri amast við þessu orði fannst málvöndunarmanninum Gísla Jónssyni ekki frágangssök að nota það – hann sagði í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1987: „Mér finnst koma til greina að nota orðin apparat (flt. apparöt) og sjans (séns), svona í vissum samböndum og stíltegundum.“
Orðið sjans/séns er a.m.k. hundrað ára gamalt í málinu og er orðið gífurlega algengt – dæmin um það í Risamálheildinni eru á níunda tug þúsunda. Það kemur fyrir í ýmsum algengum orðasamböndum – gefa séns, taka sénsinn, eiga ekki séns, komast á séns, á síðasta séns o.s.frv. Vitanlega er þetta löngu orðið gott og gilt íslenskt orð sem fráleitt er að amast við þótt uppruninn sé vissulega erlendur – eins og í ótalmörgum öðrum íslenskum orðum. Heiti eins og gefum íslensku tækifæri eða gefum íslensku möguleika eru of formleg og merkja þar að auki alls ekki nákvæmlega það sama og gefum íslensku séns. Heiti átaksins er einmitt sérlega vel valið – það er á þeirri hversdagslegu og eðlilegu íslensku sem fólk sem er að læra málið þarf að ná valdi á.