Besta tökuorð ever?

Í einum af pistlum Eiðs heitins Guðnasonar, „Molar um málfar og miðla“, skrifaði hann um orðið ever og sagði: „Enska orðið ever þrengir sér inn í íslenskuna. Rætt var við tónlistarblaðamann, sem svo var kallaður. Hann sagði um velgengni íslenskrar hljómsveitar að það væri flottasta byrjun ever.  Flottasta byrjun sem sögur fara af, hefði hann til dæmis getað sagt, flottasta byrjun í manna minnum. Bara ekki flottasta byrjun ever. Þetta heyrist því miður býsna oft.“ Þegar þetta var skrifað árið 2012 var það svo sem ekki nýtt að nota ever á þennan hátt í íslensku. Það er mjög algengt í elstu textum af samfélagsmiðlum, frá því um aldamót, og hefur því væntanlega verið orðið útbreitt í talmáli á síðasta áratug tuttugustu aldar eða fyrr.

Nokkur dæmi af Hugi.is frá árinu 2000: „Team fortress 2 verður besti leikur ever“, „En er Starcraft mest spilaði herkænskuleikur ever??“, hver finnst ykkur vera besti Simpsons þáttur ever?“, „Ég var að búa til mína fyrstu heimasíðu, ever“, „Þetta er líka einn mesti sukkari ever“, „Þetta var nú bara barnalegasta svar ever“, „hvað finnst ykkur vera bestu þungarokks hljómsveitir ever?“, „það er talin vera besta útgáfan af windows ever“, „ein af þeim bestu ever“, „stærsta nördamót ever“, og svo mætti lengi telja. Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru rúm tuttugu þúsund dæmi um ever. Eitthvað af þeim er vissulega úr ensku samhengi, en ljóst er að ever er gífurlega algengt í óformlegu málsniði og hefur verið í a.m.k. aldarfjórðung.

En notkun ever í íslensku er þó ekki einskorðuð við óformlegt málsnið – töluvert er farið að bera á henni í formlegra máli og hún fer þar ört vaxandi. Elsta dæmi sem ég fann um það er úr Morgunblaðinu 2004: „Esjan er líka flottasta fjall ever.“ Í Morgunblaðinu 2006 segir: „sem við höfuðborgarbúar borgum reyndar með hæstu sköttum ever.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Hún var alveg ótrúleg manneskja og flottasta kona ever.“ Í ræðu á Alþingi 2015 segir: „við […] stefnum hér kannski inn í bestu ár Íslands ever.“ Í Vísi 2017 segir: „Stærsta stund ever í fótbolta.“ Í Stundinni 2017 segir: „það var besta frí ever.“ Í Kjarnanum 2018 segir: „Versti laugardagur ever.“ Í DV 2023 segir: „Besti dagur ever með besta fólkinu okkar.“

Í ensku hefur ever nokkur skyld merkingarbrigði en í íslensku samhengi er merking þess mun þrengri – þar merkir það alltaf 'frá upphafi', 'nokkru sinni' eða eitthvað slíkt. En það er ekki síður setningarstaða orðsins sem er öðruvísi og afmarkaðri í íslensku en ensku. Í íslensku kemur það ævinlega aftast í setningu eins og framangreind dæmi sýna og á undan því fer oftast lýsingarorð í efsta stigi þótt miðstigi með samanburðartengingunni en bregði einnig fyrir, eins og í „Ég er farin að sofa en vöknuð aftur og hressari en ever“ á Bland.is 2005, og „Hann er nefnilega sprækari en ever!“ á Twitter 2021. En ever kemur aldrei fyrir inni í setningu – dæmi eins og *hefurðu ever séð flottari byrjun? eða *ég hef ever verið viss um þetta finnast ekki.

Fjöldi orða hefur komið inn í málið úr ensku á undanförnum árum og áratugum, en orðið ever hefur þá sérstöðu að vera atviksorð þótt flokkur atviksorða sé venjulega talinn fremur lokaður og sjaldgæft að ný orð bætist í hann, hvað þá tökuorð. Auðvitað má hafa ýmislegt á móti ever, bæði enskan uppruna og ekki síður hljóðafarið – íslensk orð hafa yfirleitt ekki e í áherslulausum atkvæðum. En á móti kemur að notkun orðsins hefur þróast á sérstakan hátt í íslensku og er önnur en í ensku. Hvað sem því líður er ljóst að ever er komið inn í íslensku og er ekkert á leiðinni út – það sýnir tíðni þess í óformlegu máli og vaxandi notkun í formlegra málsniði. Ég nota það stundum sjálfur og get því ekki verið að agnúast út í notkun annarra á því.