Tölum íslensku – en notum túlk ef þarf
Í fréttum á vefmiðlum er vitnað í Facebook-færslu Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar um að fulltrúi Reykjavíkurborgar á fundi um mygluvandamál í leikskóla nokkrum hafi neitað að svara spurningum á ensku og hunsað slíkar spurningar, og hafnað boðum fundargesta um túlkun. Það má búast við að tilvikum af þessu tagi fari fjölgandi og við þurfum að hafa einhverja stefnu í því hvernig brugðist er við. Við viljum halda því til streitu að íslenska sé notuð alltaf og alls staðar á Íslandi, en jafnframt verðum við að vera raunsæ og viðurkenna að hér býr fjöldi fólks sem ekki talar málið og það er mikilvægt að gæta réttinda þess fólks og halda upplýsingum ekki frá því – allra síst þegar málið snýst um hagsmuni barna.
Íslenska er opinbert mál á Íslandi, mál ríkis og sveitarfélaga, og vitanlega er eðlilegt að fundur af þessu tagi fari fram á íslensku. En jafnframt er eðlilegt og óhjákvæmilegt að bjóða upp á túlkun fyrir þau sem skilja ekki íslensku – annað er óþolandi jaðarsetning sem mun koma okkur í koll. Í athugasemd við áðurnefnda frétt segir samskiptastjóri Reykjavíkurborgar að um sé að ræða einkarekinn leikskóla og þess vegna sé það hlutverk skólans en ekki borgarinnar að útvega túlk, og það má til sanns vegar færa. Samskiptastjórinn hafnar því að fulltrúi borgarinnar hafi gert athugasemdir við að fundargestir væru að túlka en reyndar getur verið vafasamt að þiggja slíkt boð. En aðalatriðið er að fundarboðendur sáu ekki til þess að útvega túlk.
Hin hliðin á málinu er sú að fulltrúi borgarinnar á fundinum treysti sér ekki til að tala ensku að sögn samskiptastjórans. Það er ekkert óeðlilegt – þótt Íslendingar geti flestir bjargað sér þokkalega á ensku er það alls ekki algilt, og auk þess þarf meira en hversdagslegan orðaforða til að tala um flókin og sérhæfð mál eins og mygluskemmdir sem þarna voru til umræðu. Auðvitað er ekki hægt að gera kröfu um það að almennt starfsfólk tali ensku ef það er ekki skilgreindur hluti af verksviði þess, og það á ekki að vera og má ekki verða sjálfsögð krafa að fólk skipti yfir í ensku þótt einhver krefjist þess eða þótt einhver viðstaddra skilji ekki íslensku. Það er réttur okkar að tala íslensku á Íslandi og ekki hægt að skylda okkur til annars.
Hin einfalda, augljósa og óhjákvæmilega leið í þessu máli er að sjá til þess að túlkur sé ævinlega til staðar. Þannig gætum við hagsmuna og réttinda allra aðila – þau sem treysta sér til geta talað íslensku, og verða ekki krafin um annað, en túlkað er fyrir þau sem ekki skilja málið. Auðvitað kostar þetta eitthvað – sennilega heilmikið – og auðvitað mun kostnaðurinn vaxa einhverjum í augum. En við höfum í raun ekkert val, nema við viljum troða á réttindum annaðhvort íslenskunnar eða innflytjenda sem eiga það inni hjá okkur að vera ekki hafðir utanveltu – þeir eru komnir hingað til að vinna fyrir okkur, oft störf sem við getum ekki eða viljum ekki sinna, og eiga verulegan þátt í þeim hagvexti og þeim lífskjörum sem við höfum notið undanfarið.