Sjónarvitni

Í fyrirsögn á vef Heimildarinnar í dag kemur fyrir orðið sjónarvitni sem kom greinilega mörgum spánskt fyrir sjónir og varð ýmsum að hneykslunarefni. Blaðamanninum var bent á að reyna aftur, „og nú á íslensku“; spurt hvers vegna þyrfti að beinþýða orð úr ensku þegar mörg orð sömu merkingar væru til í íslensku og öll betri; spurt hvort Heimildin þyrfti að ráða  prófarkalesara; spurt hvort viðkomandi blaðamaður væri „fullur af gervigreind; sagt að það væri „gaman ef fréttamiðlar tilkynntu hvar blaðamenn þeirra lærðu íslensku“; talað um „hráþýðingu“, „nýíslensku“, o.fl. Það dró heldur úr hneyksluninni þótt henni linnti ekki alveg þegar bent var á að sjónarvitni er „góð og gild íslenska og hefur verið notað allt frá 16. öld“.

En orðið er reyndar miklu eldra. Um það finnast ein ellefu dæmi í fornu máli samkvæmt Ordbog over det norrøne prosasprog, það elsta í handriti lögbókarinnar Járnsíðu frá áttunda áratug þrettándu aldar: „og kemur víglýsing og sjónarvitni fram.“ Annað dæmi er úr Kristnirétti Árna biskups frá því um 1300: „það skal vera sjónarvitni sem skírskotað er undir.“ Orðið sjónarvottur sem mörgum fannst að blaðamaður Heimildarinnar hefði átt að nota kemur hins vegar ekki fyrir í fornu máli – elsta dæmi um það er í fyrsta árgangi Minnisverðra tíðinda frá 1796: „eg bæti því adeins vid, til sanninda merkis, ad Sóknar-presturinn þar, er siónar-vottur þessa vidburdar.“ En orðið er þegar á nítjándu öld margfalt algengara en sjónarvitni.

Þótt orðið sjónarvitni sé vissulega sjaldgæft er hvorki ástæða til að ætla að það sé beinþýðing úr ensku sem vilji svo til að sé samhljóma gömlu íslensku orði, né að það sé tilgerð blaðamanns sem hafi rekist á það í fornum textum og ákveðið að nota það sem smellubeitu í fyrirsögn eins og nefnt var í umræðunni. Það verður nefnilega ekki betur séð en orðið hafi haldist í málinu alla tíð og er bæði að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók. Rúm sextíu dæmi eru um það á tímarit.is, þar af fjögur frá þessari öld, en samtals fjörutíu frá sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Orðið er hins vegar of sjaldgæft til að hafa komist inn í Íslenska nútímamálsorðabók, en er að finna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Hitt er annað mál að merking orðsins virðist hafa breyst svolítið frá fornu máli – þar merkir það oftast 'vitnisburður', þ.e. vísar ekki til persónu – sjónarvotts – heldur til frásagnar. Í Íslensk-danskri orðabók er gerður munur á skýringu orðanna sjónarvottur og sjónarvitni – það fyrrnefnda er skýrt 'Öjenvidne' en það síðarnefnda 'et Öjenvidnes Vidnesbyrd'. En í Íslenskri orðabók eru orðin spyrt saman og skýrð 'sá sem hefur orðið vitni að e-u, séð atburð gerast' og þannig virðist sjónarvitni yfirleitt hafa verið notað undanfarnar aldir ef marka má dæmin í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Það er því nákvæmlega ekkert athugavert við að nota orðið sjónarvitni eins og gert var í Heimildinni – miklu fremur lofsvert að blása lífi í sjaldgæft orð.