Indir

Muna einhver eftir því að hafa heyrt – eða jafnvel sagt – indir með i í stað undir? Þessi framburður þekktist áður fyrr en er líklega alveg horfinn nú. Í Mállýzkum II eftir Björn Guðfinnsson segir frá því að í rannsóknum hans á framburði 10-14 ára barna um allt land upp úr 1940 hafi þessi framburður komið fyrir í samsetningunum undireins, undirferli og undirsæng – orðið undir kom ekki fyrir sem sjálfstætt orð í rannsókninni. Þessi framburður kom eingöngu fyrir á Norðurlandi, allt frá Vestur-Húnavatnssýslu til Suður-Þingeyjarsýslu, en var algengastur í Skagafirði, Eyjafirði og á Siglufirði. Það var þó aðeins lítill hluti barnanna í rannsókninni sem hafði þennan framburð, og ekkert þeirra hafði hann í öllum orðunum þremur.

Þegar ég var á sjötta ári kom rafmagn heima hjá mér og um leið Rafha eldavél. Á henni voru fimm snerlar og fyrir ofan hvern um sig bókstafur – V, U, A, Y, H. V þýddi „vinstri hella“, A „afturhella“ og H „hægri hella“, og það fannst mér nokkuð gagnsætt en áttaði mig ekki á U og Y fyrr en það var útskýrt fyrir mér að þetta tengdist bakarofninum – U táknaði „undirhiti“ og Y „yfirhiti“. Ég var um það bil að verða læs og þekkti hljóð allra bókstafanna – vissi að bæði I og Y höfðu hljóðið i, en hef væntanlega ekki verið farinn að pæla neitt í því hvenær hvor bókstafurinn væri notaður. Ég man nefnilega eftir því að mér fannst Y á eldavélinni ruglandi og spurði hvernig ætti að vita hvort það stæði fyrir indirhita eða ifirhita.

Þetta sýnir væntanlega að ég hef sagt indir í æsku – a.m.k. hefur sá framburður tíðkast í málumhverfi mínu á þessum tíma, Skagafirði austan Vatna árið 1960. Ég man samt ekkert eftir því – við tökum yfirleitt ekki eftir því hvernig fólkið sem við ölumst upp hjá talar nema við heyrum eitthvað óvenjulegt. Ég man til dæmis eftir því að gamlir menn í málumhverfi mínu sögðu höndur og tönnur þannig að það hefur aldrei verið mitt mál. Ástæðan fyrir því að ég man eftir áðurnefndu atviki er líklega sú að fullorðna fólkinu fannst þetta fyndið og það var hlegið að þessu – örugglega góðlátlega, en svoleiðis getur setið í börnum. Ég þakka samt fyrir það núna, því að þetta er eini vitnisburðurinn sem ég hef um framburðinn indir í mínu máli.