Ég er að fara ufrum
Í gær skrifaði ég hér um framburðinn indir fyrir undir sem var bundinn við Norðurland en er nú sennilega alveg horfinn. En annað norðlenskt dæmi um víxl i (y) og u er öllu þekktara og lifir góðu lífi – framburðurinn ufrum, ufrí og ufrá á yfir um, yfir í og yfir á. Slík víxl má rekja til þess þegar y táknaði sérstakt hljóð í málinu – frammælt kringt hljóð sem var ekki langt frá u. Þegar y hætti að vera sérstakt hljóð fengu flest orð með því i eins og þau hafa nú, en fáein orð fóru stundum í hina áttina og fengu u í staðinn, og því urðu til ýmsar tvímyndir – ukkur, spurja, smurja, kjur, drukkur o.fl. við hlið ykkur, spyrja, smyrja, kyrr og drykkur. Myndir með u eru oftast taldar óformlegri og sjaldan notaðar í riti, og eru líklega flestar á undanhaldi.
Forsetningin yfir ein og sér er aldrei borin fram *ufir – framburður með u kemur eingöngu fyrir í sambandi við aðra forsetningu, og aðeins ef áherslulausa i-ið í öðru atkvæði fellur brott þannig að framburðurinn verður ufr- – *ufirum er ekki til. Í texta sem börn lásu í mállýskurannsókn Björns Guðfinnssonar upp úr 1940 var ritað yfrum í stað hins viðurkennda ritháttar yfir um til að reyna að fá fram framburðinn ufrum. Í rannsókn Björns kom þessi framburður mun sjaldnar fyrir en framburðurinn indir – aðeins í örfáum tilvikum á Norðurlandi, einkum í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði. En öfugt við indir lifir ufrum góðu lífi, a.m.k. í Skagafirði þar sem þetta er nánast orðið héraðseinkenni og eitt af því sem Skagfirðingar eru stoltir af.
Í Króksbók sem Rotaryklúbbur Sauðárkróks gaf út 1993 segir: „Það þykir gott að nota mikið b- og u-hljóð, eins og t.d. í ufrum, þegar farið er yfir um. […] Ég habbðiða gott þegar ég var kominn ufrum.“ Í þetta er vitnað í Morgunblaðinu 1996 og bætt við til skýringar: „Í þessu sambandi er rétt að geta þess að það að fara austur yfir Héraðsvötn kalla Króksarar að fara yfir um – ufrum.“ Það orðalag virkar í báðar áttir – þegar ég er í Blönduhlíðinni austan Vatna fer ég ævinlega ufrí Varmahlíð eða ufrum og gæti ekki með nokkru móti sagt yfir um eða yfrum. En í mínu máli, og líklega annarra Skagfirðinga sem hafa þennan framburð, gildir það eingöngu um þessa tilteknu ferð, yfir Vötnin – ég segði t.d. ég er alveg að fara yfir um en alls ekki *ufrum.
Myndirnr ufrum, ufrí og ufrá eru því í raun sérstök og sjálfstæð orð. Það er ekki við því að búast að finna á prenti mörg dæmi sem sýni þennan framburð, en þau örfáu sem finna má á tímarit.is frá seinni árum tengjast nær öll Skagafirði og Héraðsvötnum. Á árum áður hefur þetta þó væntanlega verið notað víðar um ferðir milli byggða yfir fljót eða firði – ég rakst á eitt dæmi um að það hefði verið notað um ferðir milli Akureyrar og Svalbarðsstrandar á seinni hluta síðustu aldar og annað úr Svarfaðardal frá fyrri hluta aldarinnar. Þótt framburðurinn sé vel þekktur í Skagafirði enn í dag, og virðist tengjast Skagafirði í huga margra, veit ég svo sem ekki hversu útbreiddur hann er meðal Skagfirðinga eða hvort ungt fólk tileinkar sér hann.