Þungarokk, bárujárnsrokk, gaddavírsrokk, graðhestarokk
Mér var bent á orðið metalmúsík í fyrirsögn í Morgunblaðinu í dag: „Íslenskur kór syngur metalmúsík í fyrsta sinn.“ Orðið er tekið úr viðtali við tónlistarmann sem birt er í fréttinni. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem það sést á prenti – „Mig langaði alltaf að gera hljómsveit sem væri með annan fótinn í metalmúsík“ segir t.d. í Morgunblaðinu 2017 og örfá önnur dæmi má finna á netinu. Í frétt Morgunblaðsins í dag er líka sagt að það sé „svolítill sinfónískur metall í prógramminu“ Í kynningu á tónleikunum á vef tix.is segir enn fremur: „Einnig verða flutt lög sem Rokkkórinn hefur sungið í gegnum árin í bland við vel valin sinfóníu metal lög“ og „Í raun er þetta í fyrsta sinn í kór sögu Íslands að kór heldur metal tónleika.“
Sú tónlistarstefna sem kennd er við metal eða heavy metal á uppruna sinn í Bretlandi og Bandaríkjunum undir lok sjöunda áratugar síðustu aldar og blómstraði á þeim áttunda. Ekki leið á löngu uns farið var að þýða heiti stefnunnar á íslensku – elsta dæmi sem ég finn um það er í Vísi 1973: „Þá er það í mestu stuði til að dansa og syngja við fjörugan hljóðfæraleik, en ekki sitja allt kvöldið undir leik einhverrar niðurdrepandi þungarokksframúrstefnuhljómsveitar.“ Orðið þungarokk kom sem sé mjög fljótlega fram og er skilgreint í Slangurorðabókinni frá 1983 sem 'þróttmikið, taktfast rokk […] einkum um kraftmikið afbrigði rokktónlistar á áttunda áratugnum'. Þar er einnig gefið afbrigðið þungavigtarrokk en ég hef ekki fundið dæmi um það.
En fleiri íslenskar þýðingar eða samsvaranir eru nefndar í Slangurorðabókinni. Ein þeirra er bárujárnsrokk þar sem fyrri hlutinn vísar augljóslega til (heavy) metal – „þátturinn […] spannar allt frá sætu súkkulaðidiskói til grjótharðasta bárujárnsrokks“ segir í Dagblaðinu 1981. Annað orð var gaddavírsrokk sem vísar væntanlega til þess að tónlistin rífi í og gæti verið myndað með hliðsjón af pigtrådsmusik í dönsku þótt það orð hafi reyndar vísað til aðeins eldri tónlistar – „Tónlistin var að meginuppstöðu dæmigert gaddavírsrokk, söngurinn óheflaður“ segir í Morgunblaðinu 1975. Þriðja orðið var graðhestarokk sem vísar væntanlega til kynferðislegra undirtóna í tónlistinni – „hlið tvö er stanslaust graðhestarokk“ segir í Vísi 1976.
Öll þessi orð – þungarokk, bárujárnsrokk, gaddavírsrokk og graðhestarokk – eru flettiorð í Slangurorðabókinni. Ekki er gott að átta sig á því hvort orðin eru alltaf notuð í alveg sömu merkingu en svo virðist þó vera. Í Morgunblaðinu 1981 segir: „Einnig drepur þú á það að þunga rokkið (Graðhestarokkið) sé orðið vinsælt aftur.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1986 segir: „Kaupahéðnar rokkiðnaðarins með alla sína fáránlegu síbylju, gaddavírsrokk, bárujárnsrokk og þungarokk, reyna auðvitað að koma myndböndunum sínum á framfæri.“ Í lesendabréfi í Morgunblaðinu skömmu síðar er vísað í þetta og sagt að höfundur „virðist ekki gera sér grein fyrir því að þetta eru bara þrjú mismunandi nöfn á sama fyrirbærinu“.
Ekkert þessara orða er flettiorð í Íslenskri orðabók og aðeins þungarokk í Íslenskri nútímamálsorðabók, en þúsundir dæma um þungarokk eru á tímarit.is og í Risamálheildinni og slæðingur dæma um hin. Fjölmörg orð hafa bæst við á seinni árum um ýmsar undirstefnur þessarar tónlistar – það langútbreiddasta er dauðarokk sem fyrst kom fyrir í grein Árna Matthíassonar í Morgunblaðinu 1990. Önnur orð eru t.d. svartþungarokk, dómsdagsrokk, víkingarokk, þjóðlagaþungarokk, öfgarokk, glysrokk, sjóræningjarokk o.fl. Það er því ljóst að mikil gróska er í nýyrðasmíð innan þessa geira og vandalaust hefði átt að vera að finna viðeigandi íslenskt orð til að nota í frétt Morgunblaðsins sem vísað var til í upphafi.