Posted on Færðu inn athugasemd

Við ötlum að gera þetta

Í útvarpsþáttum um Kristmann Guðmundsson um daginn var rifjuð upp vísa sem þeir ortu í sameiningu Kristmann og Jóhannes úr Kötlum, sem byrjaði: „Lít ég einn, sem list kann, / löngum hafa þær kysst hann / – Kristmann.“ Kristmann botnaði samstundis: „Einkum þó vér ötlum / að þær fari úr pjötlum / í Kötlum.“ Þarna er rímbundin orðmyndin ötlum sem sjálfsagt kemur mörgum ókunnuglega fyrir sjónir enda er hún sjaldséð og líklega einnig sjaldheyrð í seinni tíð, en var vel þekkt áður fyrr. Þau sem þekkja hana ekki átta sig þó e.t.v. á því af samhenginu að þarna væri í venjulegu máli ætlum, en það liggur ekki í augum uppi hvernig ætlum verður ötlum – þótt stafirnir æ og ö standi saman í stafrófinu eru hljóðin æ og ö gerólík.

Til að skilja þetta þarf að átta sig á því að tvíhljóðið æ () missir oft seinni hlutann (í-hlutann) þegar það er stutt og eftir stendur þá einhljóðið a. Þetta gerðist snemma í sögninni ætla – í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld segir Björn Karel Þórólfsson að sögnin hafi þá þegar, á 14.-15. öld, „fengið hina nýíslensku talmálsmynd atla“. Þessi mynd er algeng í ritum fram undir lok nítjándu aldar en frekar sjaldséð eftir það – hefur væntanlega orðið fyrir barðinu á málhreinsun og samræmdri stafsetningu á seinni hluta aldarinnar. Í töluðu máli hélst hún þó áfram og er líklega algengasta framburðarmynd sagnarinnar enn í dag þótt við tökum sjaldnast eftir henni vegna þess hve hljóðskynjun okkar er mótuð af stafsetningunni.

En einmitt vegna áhrifa stafsetningarinnar er lítill vafi á því að í huga okkar er sögnin ætla með æ þrátt fyrir að við berum hana iðulega fram með a – við teljum okkur sem sé vera að segja ætla þótt við segjum í raun atla. Slíkra áhrifa gætti aftur á móti mun síður eða ekki fyrir daga samræmdrar stafsetningar og þess vegna er engin ástæða til annars en gera ráð fyrir að í huga þeirra sem heyrðu atla fyrr á öldum hafi sögnin verið með a en ekki æ. En sögn með a í stofni fær ö í þess stað þegar beygingarending hefst á sérhljóði (u-hljóðvarp), eins og (ég) afla – (við) öflum, og sama gerðist með ætla eins og kemur fram hjá Birni Karel Þórólfssyni í áðurnefndri bók: „Hinar nýju myndir með a, (ö) koma oft fyrir á 16. öld: eg atlade […]; þeir øtludu […].“

Það er því ekki um það að ræða að ætlum breytist beinlínis í ötlum, heldur breytist grunnmyndin ætla í atla og fyrsta persóna fleirtölu er svo búin til með almennum reglum út frá þeirri mynd, og verður (við) ötlum. Þessi mynd heyrist eitthvað enn í töluðu máli en þó sennilega mun sjaldar en fyrir nokkrum áratugum. Tvíhljóðið æ einhljóðast samt ekkert síður en áður, og ekkert síður í ætlum en í öðrum myndum sagnarinnar, en vegna þess að í huga flestra er sögnin væntanlega með æ en ekki a þrátt fyrir framburð með a verður ekkert u-hljóðvarp og við fáum (við) atlum frekar en ötlum. Hugsanlegt er þó að ötlum komi meira fyrir í máli barna sem stafsetning hefur enn ekki haft áhrif á, en um það er ekkert hægt að segja með vissu.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.