Haltu í haldlegginn á mér
Ég var að leita að dæmum um sögnina haldleggja á tímarit.is og rakst þá á nokkur gömul dæmi um myndina haldlegg, sem vissulega gæti verið fyrsta persóna eintölu í framsöguhætti nútíðar af haldleggja (ég haldlegg) en hafði greinilega setningarstöðu nafnorðs. Í Lögbergi 1913 segir: „Þar stóð ungfrú Margrét; hún studdist við haldlegg Alains og beygði sig út yfir freyðandi hylinn.“ Í Morgunblaðinu 1943 segir: „Eru göng grafin þar inn í brekkuna […] svo víð, að smeygja má haldlegg inn í þau.“ Í Fálkanum 1951 segir: „Hann þrýsti haldlegg Marian fast að sér.“ Í Tímanum 1951 segir: „Hann tók um haldlegg Denise.“ Í Sunnudagsblaðinu 1960 segir: „Hún rétti fram haldlegginn og klappaði á kollinn á honum eins og hann væri lítill krakki.“
Af þessum dæmum er vitanlega ljóst að myndin haldlegg stendur þarna fyrir handlegg, og fleiri beygingarmyndir orðsins með þessum rithætti má finna. Í Þjóðviljanum 1973 segir: „það er svolítið annar haldleggur.“ Í Lögbergi 1944 segir: „hann lagði haldlegginn á herðar hennar.“ Í Vikunni 1960 segir: „Hún sýndi honum visna haldleggi sína og fætur.“ Í Eyjafréttum 2021 segir: „Ég festist einu sinni í spilinu en stýrimaðurinn náði að bjarga mér áður en haldleggurinn fór í spilið.“ Í Alþýðublaðinu 1945 segir: „undir haldleggnum hélt hún þó á nótunum yfir „Triston og Isolde.““ Í Heimilistímanum 1980 segir: „Fyrstu sjúkdómseinkenni eru bólga í kirtlum undir haldleggjum.“ Í Tímanum 1941 segir: „það var Sally, sem tók í haldlegginn á honum.“
Alls eru tæplega þrjátíu dæmi um að beygingarmyndir af handleggur séu skrifaðar hald- á tímarit.is og í Risamálheildinni eru dæmin um tuttugu, nær öll af samfélagsmiðlum. Það er ljóst að hér er ekki um prentvillur að ræða, heldur sýnir þetta skilning þeirra sem nota orðið á því – þau tengja fyrri hlutann við sögnina halda en ekki nafnorðið hönd. Það er í sjálfu sér ekki fráleitt frá merkingarlegu sjónarmiði – og frá hljóðfræðilegu sjónarmiði er þetta líka skiljanlegt. Eðlilegt er að samhljóðaklasi eins og ndl einfaldist inni í orði og framburðurinn verði hanleggur og þegar d fellur brott dofna tengslin við hönd. Framburðurinn getur jafnvel orðið halleggur (með löngu l-i og e.t.v. nefjuðu a-i) og skiljanlegt að sá framburður sé skilinn sem haldleggur.
Nú er ég vitanlega ekki að skrifa þetta til að mæla með þessum framburði eða halda því fram að hann eigi að teljast réttur. Þótt honum hafi brugðið fyrir í meira en öld hefur hann greinilega alltaf verið mjög sjaldgæfur – en samt örugglega útbreiddari en ritmálsdæmi benda til því að væntanlega hefur hann oft orðið fórnarlamb prófarkalesturs. En hér er ekki um málbreytingu að ræða heldur einstaklingsbundinn (mis)skilning á ákveðnu orði og auðvitað væri eðlilegt að leiðrétta þetta og benda á misskilninginn. Mér finnst dæmi af þessu tagi hins vegar skemmtileg því að þau veita okkur innsýn í huga málnotenda og sýna hvernig fólk leitast við að greina og skilja orðin. Þau sýna hugsun og greiningu fremur en fáfræði eins og ætla mætti í fyrstu.