Að feðra börn – og mæðra
Það ber sífellt meira á því að merking íslenskra orða hnikist til vegna áhrifa frá ensku. Oft er þá um að ræða orð sem eru orðsifjafræðilega og merkingarlega skyld í íslensku og ensku en merkja ekki alveg það sama, en vegna líkinda orðanna fer merkingarmunurinn fram hjá málnotendum. Eitt slíkt dæmi er sögnin feðra. Hún er gömul í málinu og merkti lengst af 'tilgreina föður að barni' eða 'ákvarða faðerni barns'. Ógiftar konur þurftu að feðra börn sín og stundum þurfti dómsúrskurð til að ákvarða faðerni barns – feðra það. Fyrir kom að ekki tækist að feðra barn þannig að það var ófeðrað, og einnig bar við að börn væru rangfeðruð. Sögnin er líka oft notuð í yfirfærðri merkingu um að 'tilgreina höfund' – feðra kvæði, feðra hugmynd o.fl.
Í seinni tíð er hins vegar algengt að sögnin feðra sé notuð sem samsvörun við ensku sögnina father sem er vissulega orðsifjafræðilega skyld, en merkir hins vegar dálítið annað – 'to become the father of a child by making a woman pregnant', eða 'verða faðir barns með því að gera konu þungaða'. Sú merking var áður tjáð með sögninni geta sem hefur m.a. merkinguna ‚gera konu barn‘ en hefur ekki verið mikið notuð í almennu máli lengi og notkun hennar í ættartölu Jesú Krists í upphafi Mattheusarguðspjalls hefur örugglega vafist fyrir ýmsum: „Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans“ – o.s.frv. Ég man eftir því þegar ég var að læra biblíusögur í barnaskóla að mér fannst þetta mjög undarleg málnotkun.
Elsta dæmi sem ég hef fundið um þessa nýju merkingu í feðra er í Morgunblaðinu 1976: „Þá á hann ennfremur að hafa feðrað tvíbura og er það einn liður ákærunnar á hendur honum.“ Í Vikunni 1989 segir: „Líffræðilega eru karlar ekki heftir á þennan sama hátt og margir geta feðrað börn langt fram eftir elliárunum.“ Dæmum fjölgar svo á seinni hluta tíunda áratugarins. Í Helgarpóstinum 1996 segir: „Ég hef feðrað fjórtán börn.“ Í Degi-Tímanum 1996: „Svo þótti hann alveg ótrúlega kvensamur og er sagður hafa feðrað fleiri börn en nokkur annar kóngur í Bretlandi fyrr og síðar.“ Í Vikunni 1999 segir: „Alls hefur Quinn feðrað 13 börn en þau voru ekki öll með í för.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Áður hafði hann feðrað stúlkubarn.“
Á sama hátt og sögnin feðra er mynduð af nafnorðinu faðir er vitaskuld hægt að mynda sögnina mæðra af nafnorðinu móðir en eðli málsins samkvæmt hafa verið minni not fyrir hana. Það hefur þó breyst með breyttu fjölskyldumynstri. Í héraðsdómi frá 2015 segir t.d.: „samkvæmt íslenskum lögum er ráð fyrir því gert að eftir að barn fæðist, og hefur verið mæðrað, kunni móðerni þess að vera breytt með ættleiðingu.“ Merking sagnarinnar mæðra er þarna hliðstæð hefðbundinni merkingu sagnarinnar feðra – afleidda nafnorðið mæðrun er í Lögfræðiorðasafni í Íðorðabankanum í merkingunni 'það að ákvarða móðerni barns'. En í samsetningunni staðgöngumæðrun er merkingin hliðstæð nýju merkingunni í feðra, þ.e. 'ganga með/fæða barn'.
Hin nýja merking sagnarinnar feðra virðist smám saman verða algengari þótt eldri merkingin lifi enn góðu lífi. Í fljótu bragði sýnist mér nýja merkingin ekki síst vera notuð þegar um er að ræða sæðisgjafa – „Faðir hans mun hafa feðrað á milli 500 og 1.000 börn þá þrjá áratugi, sem hann vann með sæðisbönkum“ segir t.d. í Morgunblaðinu 2013. Það eru svo sem ótal dæmi um að orð hafi fleiri en eina merkingu og í þessu tilviki er oftast ljóst af samhenginu um hvora merkinguna er að ræða – í hefðbundinni merkingu eru það t.d. yfirleitt konur (eða dómstólar) sem feðra börn en í nýju merkingunni eru það karlmenn. Samt sem áður gæti nýja notkunin ruglað fólk sem þekkir hana ekki í ríminu og rétt að hafa það í huga ef hún er notuð.