Verðið getur lækkað skart
Í morgun sá ég í frétt á vef Ríkisútvarpsins: „Verð hlutabréfa getur lækkað skart ef margir selja með skammtímagróða í huga.“ Það er ljóst af samhenginu að skart er þarna atviksorð sem merkir ‘snöggt og mikið’ eða eitthvað slíkt. Orðið er hins vegar ekki að finna í neinum orðabókum, og skömmu eftir að umrædd frétt birtist hafði skart verið breytt í skarpt – sem er raunar ekki heldur sjálfstætt flettiorð í orðabókum en er greinilega leitt af hvorugkyni lýsingarorðsins skarpur. Það er alkunna að hvorugkyn lýsingarorða er iðulega notað sem atviksorð án þess að ástæða þyki til að gera það að sjálfstæðri orðabókarflettu vegna þess að merkingin er fullkomlega fyrirsjáanleg út frá lýsingarorðinu.
Það er ekki einsdæmi að myndin skart sjáist í rituðu máli. Slæðing af dæmum má finna á tímarit.is – það elsta sem ég fann er í Harðjaxli laga og réttar 1924: „Ég heilsaði Tryggva svo skart yfir salinn, að þeim, sem á milli okkar var, kendi til.“ Í Lindinni 1957 segir: „þá var kippt svo skart í færið hjá honum að hann fór á hausinn út í vatn.“ Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Þegar líður að þessum árstíma gengur síldin mjög skart á grynningar.“ Í NT 1985 segir: „Það brimaði mjög skart á miðvikudagskvöldið.“ Þetta er sérstaklega algengt með sögnunum hækka og lækka. Í Degi 1999 segir: „Gengið á bönkunum hefur hækkað mjög skart.“ Í Morgunblaðinu 1997 segir: „Vextir lækkuðu skart í kjölfarið.“ Í Risamálheildinni eru hundruð dæma um skart.
Þessi dæmi eru alltof mörg til að afgreiða þau sem prentvillur – þau sýna að í huga þeirra sem nota skart sem atviksorð er það sjálfstætt orð, án tengsla við skarpur. Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt. Klasinn -rpt- er nánast óframberanlegur og einfaldast ævinlega í framburði, þannig að miðsamhljóðið fellur brott eins og algengast er í slíkum tilvikum og framburðurinn verður skart. Það er í raun alveg hliðstætt við það að þegar hvorugkynsendingin -t bætist við stofn lýsingarorða eins og harður og kaldur kemur út hart, kalt en ekki *harðt, *kaldt – nema í því tilviki er einföldun klasans viðurkennd í stafsetningu. Raunar getur skart líka verið hvorugkyn af lýsingarorðinu skarður og þá er brottfallið viðurkennt í stafsetningunni.
Í dæmum eins og þessum, þar sem hljóð í stofni fellur ævinlega brott í framburði tiltekinnar orðmyndar, skiptir máli hversu augljós merkingartengsl viðkomandi myndar við stofninn eru í huga málnotenda. Ef þau eru augljós getur brottfallna hljóðið orðið hluti af hugmynd þeirra um myndina og kemur fram í því hvernig hún er rituð, eins og í verpt, af verpa. Séu tengslin hins vegar óskýr eru líkur á að í huga málnotenda verði viðkomandi mynd án brottfallshljóðsins og það endurspeglist þá í rithætti hennar. Lýsingarorðið skarpur hefur nokkur merkingartilbrigði en ekkert þeirra svarar nákvæmlega til þeirrar merkingar sem afleidda atviksorðið skar(p)t hefur nema helst ‘beittur, hvass’ þótt vissulega sé stundum talað um skarpa lækkun / hækkun.
Þessi merkingartengsl eru þó svo óljós að það er ekkert óeðlilegt að fólk sem heyrir atviksorðið skart notað tengi það ekki við lýsingarorðið skarpur og p verði þess vegna ekki hluti af hljóðmynd fólks af orðinu heldur verði til nýtt og sjálfstætt atviksorð – skart. Við það er í raun ekkert að athuga. Orðið skart fellur fullkomlega að málinu, ekki síður en hart og bjart. Vissulega er hægt að koma með þá mótbáru að með því að skrifa orðið án p glatist tengslin við uppruna þess, en þau tengsl eru hvort eð er óljós í huga margra og alveg eins má halda því fram að rithátturinn hart sé óheppilegur af því að hann sýni ekki tengslin við harður. Ég legg sem sé til að skart, ritað á þann hátt, sé viðurkennt sem sjálfstætt atviksorð í íslensku.