Sorgarferli

Fyrir tólf árum lýsti Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri í Reykjavík, því yfir að hann hefði upplifað einelti á íbúafundi í Grafarvogi. Þessi notkun Jóns á orðinu einelti var gagnrýnd með vísun í ýmsar skilgreiningar á orðinu – í „Lögfræðiorðasafni“ í Íðorðabankanum segir t.d.: „Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta.“ Séra Sigríður Guðmarsdóttir sagði: „Eitt helsta ein­kenni einelt­is er að þar er ráðist gegn ein­stak­lingi eða hópi og hann gerður vald­laus og ósýni­leg­ur. [...] En ég held að þegar vald­mikl­ir menn tala um einelti á hend­ur sér séu þeir að taka yfir orðræðu hinna vald­lausu.“

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgun þegar ég sá fyrirsögnina „Sorgarferli á Suðurnesjum“ í Morgunblaðinu og hélt í fyrstu að eitthvað vofeiflegt hefði gerst, en þá – og sem betur fer – reyndist fréttin snúast um skyndileg starfslok lögreglustjórans á Suðurnesjum. „Það eru all­ir slegn­ir yfir þessu og segja má að við séum í sorg­ar­ferli“ er haft eftir lögreglufulltrúa hjá lögreglustjóraembættinu. Orðið sorgarferli er skýrt ‚tímabil sorgar eftir andlát manns‘ í Íslenskri nútímamálsorðabók en skýringin í Íslenskri orðabók er öllu almennari og ítarlegri: „ferli viðbragða eftir áfall, s.s. dauða ástavinar, þar sem við sögu geta komið lost, afneitun og sársauki en einnig úrvinnsla tilfinninga með skilningi og að lokum einhvers konar sátt.“

Nú skal ég síst draga úr því að skyndilegt brotthvarf lögreglustjórans úr starfi hafi komið samstarfsfólki hans á óvart og það sé slegið og jafnvel í áfalli. En að tala um sorgarferli í því sambandi er út úr öllu korti, hvað þá sorgarferli á Suðurnesjum eins og þetta nái til alls almennings. Orðanotkun af þessu tagi er óheppileg vegna þess að hún dregur úr vægi orðsins og gerir lítið úr þeirri alvöru og sorg sem um er að ræða í raunverulegu sorgarferli. Sama gildir um ofnotkun orðsins einelti og ýmissa annarra orða sem tengjast framkomu fólks. Þetta er viðkvæmt og vandmeðfarið vegna þess að upplifun fólks getur verið svo misjöfn, en munum samt að orð geta sprungið og það getur vöknað í púðrinu eins og Sigfús Daðason sagði.