Sorg og sorgarferli er tvennt ólíkt

Í gær skrifaði ég um það sem ég taldi vera óheppilega notkun orðsins sorgarferli í frétt Morgunblaðsins þar sem það var notað um líðan starfsfólks lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum vegna skyndilegra starfsloka lögreglustjórans. Um þetta má vitaskuld deila og séra Hjálmar Jónsson gerði athugasemd við þetta í „Málspjalli“ og sagði: „Missir er margs konar og fólk tekst á við margvíslegar sorgir og áföll. Ég hef umgengist fólk í sorgum í nærri hálfa öld. Maður gengur inn í þær aðstæður með fólki eftir föngum en dettur ekki í hug að leggja dóm á hvað er mikil eða lítil sorg.“ Þetta er auðvitað rétt en kemur málinu þó í raun ekki við vegna þess að þarna er verið að tala um sorg en ekki sorgarferli og það er tvennt ólíkt.

Orðið sorgarferli er nefnilega nýlegt og eiginlega íðorð. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er íðorð – sem Guðmundur Finnbogason landsbókavörður mun hafa búið til á þriðja áratug síðustu aldar þótt það hafi verið sárasjaldgæft fram undir 1990 – skýrt ‘orð sem tilheyrir ákveðnu sérsviði, t.d. læknisfræði, fræðiorð, fagorð’ en íð (sem er nánast eingöngu notað í samsetningum eins og handíð) merkir ‘verk, iðn, starf’ eins og segir í Íslenskri orðabók. Margs konar munur er á íðorðum og orðum í almennu máli – til að íðorðin þjóni tilgangi sínum verða þau að hafa afmarkaða og skýra merkingu en merking orða í almennu máli er oft miklu óljósari og getur verið breytileg að vissu marki milli málnotenda, og getur einnig breyst með tímanum.

Elstu dæmi um orðið sorgarferli eru frá árinu 1985, úr Hjúkrun, tímariti Hjúkrunarfélags Íslands, og Ljósmæðrablaðinu. Þetta eru vitanlega fagtímarit og augljóst að orðið er þar notað sem íðorð. Ítarleg og nákvæm skýring orðsins í Íslenskri orðabók, ‘ferli viðbragða eftir áfall, s.s. dauða ástavinar, þar sem við sögu geta komið lost, afneitun og sársauki en einnig úrvinnsla tilfinninga með skilningi og að lokum einhvers konar sátt’, er líka dæmigerð fyrir skilgreiningu íðorðs, auk þess sem orðið er merkt þar sérstaklega sem fræðiorð („líf/lækn“). Orðið sorg er hins vegar ævagamalt í málinu og tilheyrir almennu máli en er ekki íðorð. Þess vegna er merking þess mun almennari og óskilgreindari – og á að vera það. Þannig er tungumálið.

Það er samt ekki svo að orð úr almennu máli og íðorð séu tveir skýrt afmarkaðir hópar sem aldrei skarist. Fjöldi orða tilheyrir báðum hópum og ræðst þá af samhengi og aðstæðum hvort orð er notað sem íðorð eða ekki. Stundum eru orð úr almennu máli tekin og gerð að íðorðum með því að hnika skilgreiningu þeirra til eða gera hana nákvæmari. Stundum er þá hætt að nota þau í almennu máli, en í öðrum tilvikum haldast þau áfram í almennri notkun til hliðar við notkunina sem íðorð. En í þessu tilviki er ljóst að orðið sorgarferli er búið til sem íðorð og þótt það sé notað í almennu máli er mikilvægt að það fái að halda skilgreiningu sinni – að öðrum kosti er hætta á að það missi gildi sitt og verði gagnslaust sem íðorð. Það væri óheppilegt.