Vandinn við kröfur um íslenskukunnáttu

Í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fyrir helgi segir: „Gera þarf kröfu við starfsleyfi hjúkrunarfræðinga um kunnáttu í íslensku og þekkingu á viðeigandi lögum og reglugerðum sem eru nauðsynleg til að gera starfað sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi.“ Í tilefni af þessari ályktun segir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum: „Það er mjög mikilvægt fyrir Landspítalann að starfsfólkið hafi hæfni í tungumálinu, því það er öryggismál að hjúkrunarfræðingar tali íslensku.“ Hann segir „upp hafa komið atvik þar sem ónóg tungumálakunnátta hafi haft afleiðingar“ – „Ef starfsfólk skilur ekki fyrirmæli sem eru gefin og þá fær sjúklingurinn meðferðina seinna en hann hefði átt að fá hana“.

Eins og hér hefur oft verið skrifað um er eðlilegt og sjálfsagt að gera kröfu um íslenskukunnáttu til ákveðinna starfa þar sem málefnaleg rök hníga til þess að slík kunnátta skipti máli og sé jafnvel öryggismál eins og í þessu tilviki. En um leið og farið er að krefjast íslenskukunnáttu kemur upp vandamál – það er alls ekki ljóst hvað í því felst að „kunna íslensku“. Forstjóri Grundarheimilanna segir að auðvitað sé það „æskilegast að hjúkrunarfræðingar á hjúkrunarheimilum tali góða íslensku“ og langflestir þeirra erlendu hjúkrunarfræðinga sem þar vinna „geti bjargað sér á íslensku“. Það er langur vegur milli þess að geta „bjargað sér á íslensku“ og tala „góða íslensku“ – telst hvort tveggja vera fullnægjandi íslenskukunnátta?

Einkafyrirtæki geta vitanlega gert þær kröfur sem þeim sýnist til starfsfólks síns, innan marka laga og almennra siðferðilegra viðmiða. En lög og opinberir aðilar mega ekki mismuna fólki á ómálefnalegum forsendum, og mikilvægt er að átta sig á því að áður en gerðar væru kröfur um íslenskukunnáttu til tiltekinna starfa, hvort sem það væru hjúkrunarstörf eða eitthvað annað, þyrfti tvennt að liggja fyrir, hvort tveggja meira en að segja það. Í fyrsta lagi þarf að ákveða hversu mikil kunnáttan þarf að vera – dugir að geta bjargað sér, eða þarf nánast móðurmálsfærni? Eða liggja kröfurnar einhvers staðar þarna á milli – og þá hvar? Í öðru lagi – og það er aðalvandinn – þarf að hafa einhverja örugga og hlutlæga aðferð til að meta kunnáttuna.

Til að meta íslenskufærni væri eðlilegast að byggja á Evrópska tungumálarammanum (Common European Framework of Reference for Languages, CEFR) þar sem metin er hæfni fólks í skilningi (hlustun og lestri), töluðu máli (samskiptum og frásögn) og ritun. Innan rammans eru sex matsþrep, allt frá A1 (algjör byrjandi) til C2 (hefur móðurmálsfærni). Ramminn sjálfur hefur verið þýddur á íslensku og á vegum Háskóla Íslands er nú unnið að þróun rafræns hæfnimiðaðs stöðumats í íslensku sem öðru máli samkvæmt samningi sem skólinn gerði við mennta- og barnamálaráðuneytið í fyrra. Til stendur að útbúa rafræn stöðupróf sem „sem meta færni próftaka á stigum A2, B1 og B2 innan Evrópska tungumálarammans“.

Í lýsingu verkefnisins segir m.a.: „Hér er um að ræða umfangsmikla rannsóknarvinnu við að ákvarða hvaða málsértæka kunnátta og færni í íslensku tilheyri hverju færniþrepi innan rammans (A1–C2), en lögð verður sérstök áhersla á A2–B2. Verkefnið felst í að skilgreina öll einstök atriði sem skipta máli í þessu sambandi, í málfræði, hljóðfræði, stafsetningu og orðaforða, sem og almennri ritmálsfærni í íslensku. Huga verður að fyrri rannsóknum í íslensku á hverju sviði fyrir sig, spá fyrir um þá þróun sem vænta má í máltileinkuninni þegar fólk er að læra íslensku, og raða atriðunum á viðeigandi stig innan Evrópska tungumálarammans. Auk þess er stuðst við rannsóknir á skyldum tungumálum og útfærslu rammans í þeim.“

Próf af þess tagi ættu að geta orðið góður grunnur að mati á íslenskufærni, en á tilteknum starfssviðum getur auk þess getur verið eðlilegt að gera viðbótarkröfur um kunnáttu í orðaforða og málfari sem notað er á viðkomandi sviði. Aðalatriðið er að ef kröfur um íslenskukunnáttu (eða einhverja aðra kunnáttu og hæfni) eru settar í lög þarf að vera skýrt hverjar kröfurnar eru, það verður að vera hægt að mæla kunnáttuna með hlutlægum aðferðum, og fólk verður að geta gengið að skýrum upplýsingum um hvað það þurfi að gera til að uppfylla kröfurnar. Það má ekki vera geðþóttaákvörðun stjórnenda hverrar stofnunar hverju sinni sem ræðst hugsanlega af atriðum sem koma íslenskufærni ekki við, s.s. atvinnuástandi eða þörf stofnunar fyrir starfsfólk.