Í millitíðinni
Af einhverjum ástæðum fór ég að skoða orðið millitíð sem í nútímamáli kemur nær eingöngu fyrir í sambandinu í millitíðinni sem er skýrt 'milli tveggja tímapunkta' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi um sambandið í þessari mynd er í Norðanfara 1876: „í millitíðinni skulu peningar þessir geymast og ávaxtast í hinum væntanlega „Sparisjóði“.“ Þetta samband er mjög algengt – um það eru tæp níu þúsund dæmi á tímarit.is. Af einhverjum ástæðum jókst tíðni þess snögglega upp úr 1980 og dæmi um það á tímarit.is eru nærri fimmfalt fleiri á þeim áratug en á áratugnum á undan. Þetta hefur haldist – í Risamálheildinni sem hefur einkum að geyma texta frá þessari öld eru dæmin hátt í þrettán þúsund.
En þótt millitíð hafi nú ævinlega greini í þessu sambandi hafði orðið raunar áður verið notað án greinis í a.m.k. heila öld. Í Sjálfsævisögu síra Þorsteins Péturssonar á Staðarbakka frá 1777 segir: „í millitíð vil ég eigi þegja við míns herra […] tilmælum.“ Í Húsfreyjan á Bessastöðum frá 1811 segir: „En í millitíð komst gamli fóstri að þessu.“ Myndirnar í millitíð og í millitíðinni virðast hafa verið notaðar hlið við hlið lengi vel þótt sú síðarnefnda hafi verið margfalt algengari frá því skömmu eftir að hún kom fram, en frá síðustu aldamótum hefur greinislausa myndin verið mjög sjaldgæf. Þó eru til nýleg dæmi: „Í millitíð ákvað forsætisráðherra að láta af störfum“ segir í grein eftir Hallgrím Helgason í Tímariti Máls og menningar 2010.
Sambandið í millitíðinni á sér merkingarlega samsvörun í danska orðasambandinu i mellemtiden og gæti hugsanlega verið myndað með hliðsjón af því. En mér finnst þó líklegra að það sé komið af danska orðinu imidlertid. Það orð merkir reyndar 'hins vegar, þó' í nútímadönsku en í eldri dönsku gat það einmitt merkt 'í millitíðinni'. Það samsvarar því íslenska sambandinu merkingarlega, og hljóðfræðilega samsvörunin er mun meiri en við i mellemtiden. Danska orðið imidlertid er líka án greinis sem rímar vel við það að íslenska sambandið var upphaflega greinislaust, í millitíð. Áhrif frá i mellemtiden sem er með greini kunna svo að hafa spilað inn í það að farið var að nota greini í sambandinu, í millitíðinni.
Sambandið í millitíðinni er auðvitað fyrir löngu orðið góð og gild íslenska, en það ber danskan uppruna óneitanlega með sér og þess vegna átti ég von á því að það hefði verið merkt sem óformlegt eða vont mál í orðabókum. En mér til mikillar undrunar kom í ljós að orðið millitíð er hvorki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 (og ekki heldur í viðbætinum frá 1963) né í Íslenskri orðabók – ekki heldur í nýjustu útgáfu hennar á Snöru. Það er mjög sérkennilegt að svo algengt orð og gamalt í málinu skuli hafa farið fram hjá orðabókahöfundum, allt fram að Íslenskri nútímamálsorðabók, en sýnir að orð geta verið lengi í málinu án þess að komast í orðabækur og þær er því ekki hægt að nota til að skera úr um hvort eitthvert orð sé til.