Enn dregur Isavia lappirnar
Á degi íslenskrar tungu fyrir hálfu öðru ári, 16. nóvember 2023, birti Isavia eftirfarandi fréttatilkynningu: „Degi íslenskrar tungu er fagnað á Keflavíkurflugvelli þann 16. nóvember 2023 með því að hleypa af stokkunum átakinu Höldum íslenskunni á lofti. Það miðar að því að íslenskan verði sýnilegri og mikilvægur þáttur í upplifun gesta flugvallarins. Stjórn Isavia hefur samhliða tekið ákvörðun um að íslenskan verði á undan öðrum tungumálum á öllum leiðbeiningarskiltum fyrir árslok 2024.“ Isavia hafði lengi setið undir miklu ámæli, m.a. frá menningar- og viðskiptaráðherra, fyrir að gera ensku hærra undir höfði en íslensku á skiltum, þannig að þessi ákvörðun vakti athygli og var víða fagnað, og fyrirtækið fékk hrós fyrir.
En þar var fullsnemma fagnað. Í gær var sett í hópinn „Málspjall“ færsla frá konu sem átti leið um Leifsstöð og rifjaði upp þessar fréttir og sagði að það væri „langur vegur frá því“ að staðið hefði verið við þessi fyrirheit. Ég hef ekki komið í Leifsstöð á þessu ári og get því ekki borið um þetta út frá eigin reynslu, en í athugasemdum við umrædda færslu birtu aðrir hópverjar myndir og ábendingar sem sýna glöggt að því fer fjarri að íslenska sé á undan ensku á öllum skiltum. Meira að segja kom fram að í nýrri viðbyggingu Leifsstöðvar, sem var opnuð á þessu ári – eftir að íslenska átti að vera komin í forgang á öllum skiltum – er sama uppi á teningnum. Það er augljóslega ekki hægt að skýra með því að það hafi tafist að skipta um skilti.
Upplýsingafulltrúi Isavia hefur verið spurður hverju þetta sæti, bæði á Facebook og í tölvupósti, en engin svör hafa borist. Mér finnst hlutur fyrirtækisins í þessu vera aumkunarverður. Eftir að hafa dregið lappirnar og móast við í mörg ár, þrátt fyrir ótal ábendingar og umkvartanir frá Íslenskri málnefnd og fleirum (sem fyrirtækið lét ekki svo lítið að svara), lét það loks undan þrýstingi í orði og lofaði bót og betrun, en stendur svo ekki við það markmið sem það setti. Eins og margoft hefur verið bent á er þjóðtungan nær alls staðar í forgrunni á alþjóðaflugvöllum – meira að segja írska á Írlandi þótt hún sé þar algert minnihlutamál. Það er hneyksli að Isavia skuli ennþá komast upp með að skjóta sér undan því að gera íslensku að fyrsta máli á skiltum.