Mjúkasta ull sem fyrirfinnst

Í færslu í „Málspjalli“ – sem hefur reyndar verið tekin út – var birt skjáskot af auglýsingu þar sem stóð „Ein mjúkasta ull sem fyrirfinnst“ og spurt hvað fólki fyndist um þetta. Augljóslega var þar átt við myndina mjúkasta sem er vissulega ekki hið venjulega efsta stig af mjúkur í nefnifalli eintölu kvenkyni – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er aðeins gefin upp myndin mýksta og á Vísindavefnum segir Guðrún Kvaran: „Í málfræðibókum yfir forna málið er hvergi minnst á að orðið mjúkur sé án hljóðvarps í miðstigi og efsta stigi. Í bók Björns Karels Þórólfssonar, Íslenzkar orðmyndir á 14. og 15. öld, […] er ekki heldur minnst á mjúkari […]. Sama gildir um […] Grammatica Islandica, sem Jón Magnússon skrifaði á 18. öld […].“

Það er rétt að óhljóðverptar myndir af mjúkur í miðstigi og efsta stigi eru ekki nefndar í þeim bókum sem vísað er til – en hljóðverptu myndirnar eru það ekki heldur. Reyndar er nefnt „að óhljóðverpta myndin af mjúkur þekkist úr prentuðum ritum“ frá 16., 17., 19. og 20. öld, og í Ordbog over det norrøne prosasprog eru endingar lýsingarorðsins mjúkr í miðstigi og efsta stigi gefnar upp sem -ari og -astr og engin dæmi eru í safni orðabókarinnar um mýkri eða mýkstur. Eitt dæmi er þar um mjúkastur, úr Karlamagnúss sögu: „Otvel þakkaði konungi gjöf þá ok féll til fóta honum ok gerðist hinn mjúkasti.“ Fimm dæmi eru hins vegar um miðstigið mjúkari, m.a. „margir menn þykki mér mjúkari í sóknum en þér Íslendingar“ í Heimskringlu.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er bæði gefið upp miðstigið mjúkari og mýkri og efsta stigið mjúkastur og mýkstur, án þess að gert sé upp á milli myndanna – nema ef lesa má eitthvað út úr því að óhljóðverptu myndirnar mjúkari og mýkri eru á undan. Sama er að segja um Íslenska orðabók nema þar eru hljóðverptu myndirnar á undan. Á tímarit.is eru um tvö hundruð dæmi um mjúkastur og aðrar óhljóðverptar myndir efsta stigs. Dæmin dreifast yfir allt tímabilið frá miðri nítjándu öld til þessa dags þótt þau séu fá í seinni tíð, en eru langflest á nítjándu öld og þá virðast óhljóðverptu myndirnar hafa verið algengari en þær hljóðverptu – elstu dæmi um hverja af óhljóðverptu myndunum eru eldri en dæmi um samsvarandi hljóðverpta mynd.

Í áðurnefndri grein á Vísindavefnum segir að óhljóðverptu myndirnar hafi „ekki talist réttar“ en í ljósi þess að þær eru einhafðar í fornu máli, virðast hafa verið algengastar fram um 1900 og bregður enn fyrir hljóta þær að teljast rétt mál. Því má bæta við að alþekkt er að orð sem beygjast óreglulega ein og sér fá oft reglulega beygingu í samsetningum – í Risamálheildinni eru t.d. fleiri dæmi um geðvondari en geðverri. Af lýsingarorðinu auðmjúkur er miðstigið bæði gefið auðmýkri og auðmjúkari og efsta stigið bæði auðmýkstur og auðmjúkastur í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Á tímarit.is er beygingin auðmjúkari auðmjúkastur nær einhöfð – hátt í þrjú hundruð dæmi eru um hana en aðeins milli tíu og tuttugu um auðmýkri auðmýkstur.