Glæpir gegn mannúð – mannúðarkrísa
Enska orðið humanity getur ýmist merkt ‘fólk almennt’ (‘people in general’) eða ‘mannúð’ (‘understanding and kindness towards other people’). Í fyrri merkingunni er það ekki síst notað í sambandinu crime against humanity sem oftast var þýtt glæpur gegn mannkyni. Wikipedia skilgreinir þetta svo: „Glæpir gegn mannkyni eru ákveðnir alvarlegir glæpir sem eru framdir sem hluti af meiriháttar árás gegn almennum borgurum“ („Crimes against humanity are certain serious crimes committed as part of a large-scale attack against civilians“). Elsta dæmi sem ég finn um þetta orðalag er í Frjálsri þjóð 1961: „Rússar hafa hér framið glæp gegn mannkyni.“ Síðan hefur þetta verið langalgengasta orðalagið sem notað er í þessari merkingu – og er enn.
Annað orðalag er þó eldra um þetta – glæpur gegn mannúð. Það kemur t.d. fyrir í Rétti 1921: „Hvaða glæpir hafa verið framdir hér gegn mannúð eða alþjóðalögum?“ Í Alþýðublaðinu 1946 eru „Afbrot gegn mannúð“ talin upp sem einn þeirra flokka sem ákært var fyrir í Nürnberg-réttarhöldunum. Þetta orðalag var lítið notað lengi vel en hefur verið endurvakið á seinustu árum, einkum í lagamáli – t.d. í Lögum um refsingar fyrir hópmorð, glæpi gegn mannúð, stríðsglæpi og glæpi gegn friði nr. 144/2018 og í „Lögfræðiorðasafni“ í Íðorðabankanum þar sem það er skilgreint „manndráp, pyndingar o.fl., framin sem hluti af víðtækri eða kerfisbundinni atlögu sem beint er gegn óbreyttum borgurum, vitandi vits um atlöguna“.
Annað enskt orð þessu skylt er humanitarian sem merkir ‘tekur þátt í eða tengist því að bæta líf fólks og draga úr þjáningum’ (‘involved in or connected with improving people's lives and reducing suffering’). Þetta orð er ekki síst notað í samböndum eins og humanitarian aid sem hefur verið þýtt mannúðaraðstoð og humanitarian crisis sem hefur verið þýtt mannúðarkrísa. Wikipedia skilgreinir þetta svo: „Mannúðarkrísa er atburður eða röð atburða sem ógna heilsu, öryggi og velferð samfélags eða stórs hóps fólks“ („A humanitarian crisis (or sometimes humanitarian disaster) is defined as a singular event or a series of events that are threatening in terms of health, safety or well-being of a community or large group of people“).
Orðið mannúðarkrísa sást fyrst í blöðum fyrir tæpum tuttugu árum og er augljóslega bein samsvörun við humanitarian crisis en er ekki sérlega heppilegt orð. Ég held að tökuorðið krísa sem er skýrt ‘ótryggt ástand, erfiðleikar’ og ‘sálræn vandamál, t.d. eftir áfall’ í Íslenskri nútímamálsorðabók sé talsvert vægara en enska orðið crisis sem er skýrt ‘tími mikils ósættis, ruglings eða þjáninga’ (‘a time of great disagreement, confusion, or suffering’) eða ‘einstaklega erfiður eða hættulegur tímapunktur í ákveðnum aðstæðum’ (‘an extremely difficult or dangerous point in a situation’). Við það bætist að eins og Wikipedia bendir á er einnig talað um humanitarian disaster í sömu merkingu en disaster er ‘voði, hörmungar’ eða eitthvað slíkt.
En þótt enska orðið humanity geti vissulega merkt ‘mannúð’ held ég að sú merking eigi tæpast við í crime against humanity og glæpur gegn mannúð sé því ekki heldur góð þýðing. Sama gildir um glæpur gegn mannkyni – mér finnst það ekki ná þeirri merkingu sem um er að ræða. Skásta þýðingin sem mér hefur dottið í hug er glæpur gegn mennskunni. Orðið mennska merkir ‘það ástand að vera maður, mannlegur’ – þarna er um að ræða glæpi gegn mannlegri reisn. Til samræmis við það mætti þá tala um mennskuvoða fyrir humanitarian crisis/disaster – eða halda sig við mannúð og tala um mannúðarvoða. En svo verður fólk að eiga það við sig hvort því finnist eitthvert þessara orða hæfilega sterkt orð til að lýsa ástandinu á Gaza um þessar mundir.