Posted on Færðu inn athugasemd

Haltu í haldlegginn á mér

Ég var að leita að dæmum um sögnina haldleggja á tímarit.is og rakst þá á nokkur gömul dæmi um myndina haldlegg, sem vissulega gæti verið fyrsta persóna eintölu í framsöguhætti nútíðar af haldleggja (ég haldlegg) en hafði greinilega setningarstöðu nafnorðs. Í Lögbergi 1913 segir: „Þar stóð ungfrú Margrét; hún studdist við haldlegg Alains og beygði sig út yfir freyðandi hylinn.“ Í Morgunblaðinu 1943 segir: „Eru göng grafin þar inn í brekkuna […] svo víð, að smeygja má haldlegg inn í þau.“ Í Fálkanum 1951 segir: „Hann þrýsti haldlegg Marian fast að sér.“ Í Tímanum 1951 segir: „Hann tók um haldlegg Denise.“ Í Sunnudagsblaðinu 1960 segir: „Hún rétti fram haldlegginn og klappaði á kollinn á honum eins og hann væri lítill krakki.“

Af þessum dæmum er vitanlega ljóst að myndin haldlegg stendur þarna fyrir handlegg, og fleiri beygingarmyndir orðsins með þessum rithætti má finna. Í Þjóðviljanum 1973 segir: „það er svolítið annar haldleggur.“ Í Lögbergi 1944 segir: „hann lagði haldlegginn á herðar hennar.“ Í Vikunni 1960 segir: „Hún sýndi honum visna haldleggi sína og fætur.“ Í Eyjafréttum 2021 segir: „Ég festist einu sinni í spilinu en stýrimaðurinn náði að bjarga mér áður en haldleggurinn fór í spilið.“ Í Alþýðublaðinu 1945 segir: „undir haldleggnum hélt hún þó á nótunum yfir „Triston og Isolde.““ Í Heimilistímanum 1980 segir: „Fyrstu sjúkdómseinkenni eru bólga í kirtlum undir haldleggjum.“ Í Tímanum 1941 segir: „það var Sally, sem tók í haldlegginn á honum.“

Alls eru tæplega þrjátíu dæmi um að beygingarmyndir af handleggur séu skrifaðar hald- á tímarit.is og í Risamálheildinni eru dæmin um tuttugu, nær öll af samfélagsmiðlum. Það er ljóst að hér er ekki um prentvillur að ræða, heldur sýnir þetta skilning þeirra sem nota orðið á því – þau tengja fyrri hlutann við sögnina halda en ekki nafnorðið hönd. Það er í sjálfu sér ekki fráleitt frá merkingarlegu sjónarmiði – og frá hljóðfræðilegu sjónarmiði er þetta líka skiljanlegt. Eðlilegt er að samhljóðaklasi eins og ndl einfaldist inni í orði og framburðurinn verði hanleggur og þegar d fellur brott dofna tengslin við hönd. Framburðurinn getur jafnvel orðið halleggur  (með löngu l-i og e.t.v. nefjuðu a-i) og skiljanlegt að sá framburður sé skilinn sem haldleggur.

Nú er ég vitanlega ekki að skrifa þetta til að mæla með þessum framburði eða halda því fram að hann eigi að teljast réttur. Þótt honum hafi brugðið fyrir í meira en öld hefur hann greinilega alltaf verið mjög sjaldgæfur – en samt örugglega útbreiddari en ritmálsdæmi benda til því að væntanlega hefur hann oft orðið fórnarlamb prófarkalesturs. En hér er ekki um málbreytingu að ræða heldur einstaklingsbundinn (mis)skilning á ákveðnu orði og auðvitað væri eðlilegt að leiðrétta þetta og benda á misskilninginn. Mér finnst dæmi af þessu tagi hins vegar skemmtileg því að þau veita okkur innsýn í huga málnotenda og sýna hvernig fólk leitast við að greina og skilja orðin. Þau sýna hugsun og greiningu fremur en fáfræði eins og ætla mætti í fyrstu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að ráðska – ráðskun

Í gær var spurt í „Málspjalli“ hvernig ætti að þýða nafnorðið manipulation á íslensku. Í Ensk-íslenskri orðabók með alfræðilegu ívafi er það þýtt 'stjórnun (einkum með óheiðarlegum brögðum eða baktjaldamakki)' og sögnin manipulate sem nafnorðið er leitt af er þar þýdd 'ráðskast með, hafa áhrif á (mann eða atburðarás) með kænskubrögðum'. Það væri vissulega gagnlegt að hafa íslensk orð sem samsvöruðu ensku orðunum en hins vegar er ekki hlaupið að því að benda á einhver tiltekin nafnorð og sögn sem henti til þess. Í umræðu komu þó fram ýmsar tillögur – launstjórn(un), innræting, þvingun, tilfinningastjórnun, skuggastjórnun, vélun, launfrekja o.fl. fyrir nafnorðið, blekkja, handlanga, klækjastýra, ráðskast með fyrir sögnina.

Mörg þessara orða eru villandi eða of almenns eðlis fyrir þá merkingu sem um er að ræða, og af þeim sem nefnd voru finnst mér einungis launstjórnun og ráðskast með koma til greina. Orðið launstjórnun hefur verið notað áður, í Morgni 1993: „Móðir Hildebrandts er kona sem iðkar launstjórnun, bruggar launráð og egnir til samsæra til að tryggja hagsmuni sína.“ Þetta er úr þýddri grein og út frá samhenginu ekki ólíklegt að launstjórnun sé þarna notað sem þýðing á manipulation. En þetta er eina dæmið sem ég hef fundið um orðið. Það er æskilegt að hægt sé að hafa samsvarandi nafnorð og sögn um manipulation og manipulate, og einfalt væri að mynda sögnina launstjórna – sem ég finn engin dæmi um – út frá nafnorðinu launstjórnun.

Sambandið ráðskast með er þekkt í málinu síðan í upphafi tuttugustu aldar þótt það hafi ekki orðið algengt fyrr en eftir miðja öldina og sérstaklega eftir 1970. Sögnin er langoftast höfð í miðmynd en germyndin ráðska (með eða í) þekkist þó einnig þótt hún sé sjaldgæf: „En nú voru þeir teknir að þreytast á að láta þá stóru ráðska með sig og kröfðust réttar síns í stjórn landsins“ segir t.d. í Vikunni 1970. Samsvarandi nafnorð, ráðskun, er enn sjaldgæfara en er þó til í málinu – „Í því tómarúmi skapast andlegt öryggisleysi, sem gerir einstaklinginn enn útsettari fyrir ráðskun af hálfu kerfisins“ segir t.d. í Læknanemanum 1969 og „Ráðskun stjórnmálaflokka með samtökin eru hættulegt víti sem varast verður“ segir í Stéttabaráttunni 1975.

Orðið launstjórnun er vissulega gagnsætt en mér finnst það samt ekki ná merkingunni í manipulation alveg nógu vel. Ég legg til að germyndin ráðska verði tekin upp sem þýðing á sögninni manipulate. Germyndin er til í málinu eins og áður segir, og kosturinn við að nota hana umfram hina venjulegu þolmynd er sá að vegna þess að hún er fæstum munntöm er hægt að gefa henni sérhæfðri og afmarkaðri merkingu en hún hefur í hinu almenna og algenga sambandi ráðskast með. Það ætti ekki heldur að vera neitt því til fyirstöðu að nota ráðskun sem samsvarandi nafnorð – það hefur ekki heldur fastmótaða merkingu í huga málnotenda og þau fáu dæmi sem finnast um það falla ágætlega að merkingu orðsins manipulation.

Posted on Færðu inn athugasemd

Við ötlum að gera þetta

Í útvarpsþáttum um Kristmann Guðmundsson um daginn var rifjuð upp vísa sem þeir ortu í sameiningu Kristmann og Jóhannes úr Kötlum, sem byrjaði: „Lít ég einn, sem list kann, / löngum hafa þær kysst hann / – Kristmann.“ Kristmann botnaði samstundis: „Einkum þó vér ötlum / að þær fari úr pjötlum / í Kötlum.“ Þarna er rímbundin orðmyndin ötlum sem sjálfsagt kemur mörgum ókunnuglega fyrir sjónir enda er hún sjaldséð og líklega einnig sjaldheyrð í seinni tíð, en var vel þekkt áður fyrr. Þau sem þekkja hana ekki átta sig þó e.t.v. á því af samhenginu að þarna væri í venjulegu máli ætlum, en það liggur ekki í augum uppi hvernig ætlum verður ötlum – þótt stafirnir æ og ö standi saman í stafrófinu eru hljóðin æ og ö gerólík.

Til að skilja þetta þarf að átta sig á því að tvíhljóðið æ () missir oft seinni hlutann (í-hlutann) þegar það er stutt og eftir stendur þá einhljóðið a. Þetta gerðist snemma í sögninni ætla – í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld segir Björn Karel Þórólfsson að sögnin hafi þá þegar, á 14.-15. öld, „fengið hina nýíslensku talmálsmynd atla“. Þessi mynd er algeng í ritum fram undir lok nítjándu aldar en frekar sjaldséð eftir það – hefur væntanlega orðið fyrir barðinu á málhreinsun og samræmdri stafsetningu á seinni hluta aldarinnar. Í töluðu máli hélst hún þó áfram og er líklega algengasta framburðarmynd sagnarinnar enn í dag þótt við tökum sjaldnast eftir henni vegna þess hve hljóðskynjun okkar er mótuð af stafsetningunni.

En einmitt vegna áhrifa stafsetningarinnar er lítill vafi á því að í huga okkar er sögnin ætla með æ þrátt fyrir að við berum hana iðulega fram með a – við teljum okkur sem sé vera að segja ætla þótt við segjum í raun atla. Slíkra áhrifa gætti aftur á móti mun síður eða ekki fyrir daga samræmdrar stafsetningar og þess vegna er engin ástæða til annars en gera ráð fyrir að í huga þeirra sem heyrðu atla fyrr á öldum hafi sögnin verið með a en ekki æ. En sögn með a í stofni fær ö í þess stað þegar beygingarending hefst á sérhljóði (u-hljóðvarp), eins og (ég) afla – (við) öflum, og sama gerðist með ætla eins og kemur fram hjá Birni Karel Þórólfssyni í áðurnefndri bók: „Hinar nýju myndir með a, (ö) koma oft fyrir á 16. öld: eg atlade […]; þeir øtludu […].“

Það er því ekki um það að ræða að ætlum breytist beinlínis í ötlum, heldur breytist grunnmyndin ætla í atla og fyrsta persóna fleirtölu er svo búin til með almennum reglum út frá þeirri mynd, og verður (við) ötlum. Þessi mynd heyrist eitthvað enn í töluðu máli en þó sennilega mun sjaldar en fyrir nokkrum áratugum. Tvíhljóðið æ einhljóðast samt ekkert síður en áður, og ekkert síður í ætlum en í öðrum myndum sagnarinnar, en vegna þess að í huga flestra er sögnin væntanlega með æ en ekki a þrátt fyrir framburð með a verður ekkert u-hljóðvarp og við fáum (við) atlum frekar en ötlum. Hugsanlegt er þó að ötlum komi meira fyrir í máli barna sem stafsetning hefur enn ekki haft áhrif á, en um það er ekkert hægt að segja með vissu.