Hluturinn er að . . .

Nafnorðið hlutur er í Íslenskri orðsifjabók skýrt 'gripur, e-ð tiltekið og áþreifanlegt; þáttur, hluti eða partur í e-u; hlutkesti, það sem e-m hlotnast' og sagt að upphafleg merking þess sé „líkl. einsk. teinn eða kubbur notaður við hlutkesti“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt annars vegar 'áþreifanlegt stykki, gripur' og hins vegar 'þáttur eða hlutverk í sameign eða einhverju sameiginlegu'. Árni Böðvarsson segir í Íslensku málfarihlutur er venjulega áþreifanlegur“ en nefnir þó dæmi um aðra notkun orðsins, svo sem um hlut í hlutafélagi, hlut fiskimanns, hlut ríkissjóðs í kostnaði o.fl. Í Íslenskri orðabók er bætt við skýringunni 'mál, málefni' og sú merking er algeng þótt mér finnist ég stundum hafa séð amast við henni.

Þetta er merkingin sem orðið hefur í sambandinu Hluturinn er að/sá … sem er stundum notað í upphafi málsgreina. Um það eru 25 dæmi frá þessari öld í Risamálheildinni, öll nema eitt af samfélagsmiðlum, t.d. „Hluturinn er að það er verið að ljúga að okkur hvað er í gangi“ á Málefnin.com 2015. Samböndin virðast því einkum notuð í óformlegu máli og liggur beint við að álykta að þetta sé einföld yfirfærsla úr ensku þar sem algengt er að byrja málsgreinar á The thing is, … sem er sagt „informal“ eða „óformlegt“ í Cambridge-orðabókinni og 'used to introduce an explanation or an excuse' eða 'notað sem formáli að útskýringu eða afsökun'. Bæði merkingin og málsniðið rímar því algerlega við notkunina á Hluturinn er að … í íslensku.

Það virðist því í fljótu bragði ekki þurfa frekari vitnanna við um að þetta orðalag sé ættað úr ensku og sennilega komið inn í málið á þessari öld. En þegar að er gáð er málið ekki alveg svo  einfalt. Á tímarit.is eru nefnilega hátt í hundrað dæmi um Hluturinn er að … og álíka mörg um Hluturinn er sá …, í nákvæmlega þessari merkingu. Í Norðanfara 1871 segir: „Hluturinn er sá, að ráðgjafinn verður eigi aðskilinn frá æðsta valdsmanni.“ Í Norðlingi 1876 segir: „Hluturinn er, að spilling er mikil í báðum flokkunum.“ Í alþingisræðuhluta Risamálheildarinnar, sem eru næstum einu textarnir þar sem ekki eru frá þessari öld, eru nítján dæmi um sambandið Hluturinn er sá … í þessari merkingu (þar af fimmtán frá tveimur þingmönnum) – það yngsta frá 1957.

Það er sem sé ljóst að samböndin Hluturinn er að … og Hluturinn er sá … eiga sér a.m.k. hálfrar annarrar aldar sögu í málinu. Samkvæmt tímarit.is var sambandið Hluturinn er að … nokkuð notað í lok nítjándu aldar og fram undir 1960 en féll þá nær alveg úr notkun. Sambandið Hluturinn er sá … var minna notað framan af en nokkuð milli 1960 og 1980 en sáralítið eftir það. En þrátt fyrir að samböndin séu gömul í málinu er ekki ólíklegt að notkun sambandsins Hluturinn er að … í óformlegu málsniði á síðustu áratugum sé til komin fyrir áhrif frá The thing is, that … í ensku. Það breytir því auðvitað ekki að fráleitt væri að amast við Hluturinn er að … vegna ensks uppruna, eins og stundum er gert þegar farið er að nota orðalag sem minnir á ensku.