Ölvunarpóstur

Í frétt á Vísi í dag segir: „Lögreglumenn settu upp ölvunarpóst í hverfi 105.“ Ég hef ekki séð orðið ölvunarpóstur áður og það er ekki í orðabókum, og ekki eru heldur nein dæmi um það á tímarit.is. Í Risamálheildinni eru tvö dæmi, það eldra á Twitter 2021: „Heyrði orðið „ölvunarpóstur“ í fyrsta sinn í gær.“ Fáein dæmi til viðbótar má finna á netinu, öll frá síðustu tveimur árum. Annað hliðstætt orð er stöðvunarpóstur sem ekki er heldur í orðabókum eða á tímarit.is en fáein dæmi eru um í Risamálheildinni – þau elstu frá 2017, þ. á m. þetta: „Eftirlitið fór þannig fram að svokallaðir stöðvunarpóstar voru settir upp á Reykjanesbraut.“ Orðið svokallaðir sýnir að ekki er búist við að lesendur þekki orðið stöðvunarpóstur.

Enn ein samsetning af sama tagi er lokunarpóstur sem er nokkru eldra en hin, a.m.k. fimmtán ára gamalt. Um það eru örfá dæmi á tímarit.is en hátt í sex hundruð í Risamálheildinni, það elsta í Sunnlenska.is 2010: „Björgunarsveitarmenn hafa mannað lokunarpósta auk þess að aðstoða við ýmis verkefni.“ Þetta orð var til umræðu í „Málspjalli“ fyrir tveimur árum og spurt hvort það væri „gilt orð yfir lokunarstað/stöð“ og bent á að skýringar orðsins póstur í Íslenskri nútímamálsorðabók næðu ekki yfir merkingu þess í þessari samsetningu, þrátt fyrir að þar séu sex mismunandi merkingar skráðar. En lokunarpóstur er komið í Íslenska nútímamálsorðabók og skýrt 'vegartálmi sem lokar fyrir umferð um veg, einkum vegna ófærðar'.

Notkun orðsins póstur í þessum samsetningum er væntanlega úr dönsku þar sem ein merking orðsins post er 'varðstöð'. Sú merking orðsins póstur hefur lengi þekkst í íslensku þótt hún hafi ekki komist í orðabækur, ekki síst í sambandinu vera/standa á sínum pósti sem er t.d. að finna í Íslensku orðaneti. Dæmi eru um það frá átjándu öld, m.a. í Ævisögu síra Jóns Steingrímssonar: „því mitt sigt var ei annað en að standa vel á mínum pósti.“ Elsta dæmi um það á tímarit.is er í Verklýðsblaðinu 1934: „hermenn fósturjarðarinnar, vökumenn þjóðarinnar, máttu aldrei víkja af sínum pósti.“ Þessi merking orðsins tíðkast enn – „Á fáum vikum sér fastaliðið í ráðuneytinu hvort sá nýi verði farsæll á sínum pósti“ segir í Morgunblaðinu 2023.

Þótt þessi merking sé vissulega komin úr dönsku á hún sér a.m.k. tvö hundruð og fimmtíu ára sögu í málinu og hlýtur að hafa unnið sér hefð, og það er hún sem orðið hefur í framangreindum samsetningum. Mér finnst orðin stöðvunarpóstur og lokunarpóstur eðlileg og gagnsæ – ég held reyndar að síðarnefnda orðið merki ekki beinlínis 'vegartálmi' heldur 'staður þar sem lokað er' – e.t.v. eingöngu með merkingum eða vörslu. Hliðstætt gildir um stöðvunarpóstur. Merkingartengsl orðhlutanna í ölvunarpóstur eru annars eðlis og orðið e.t.v. ekki eins gagnsætt – kannski þurfum við að styðjast við lokunarpóstur og stöðvunarpóstur til að átta okkur á því. En það er vitanlega algengt að merkingartengsl liða séu ólík í orðum sem eru formlega hliðstæð.