Arion gegn íslenskunni
Eins og alkunna er og oft er rætt um er íslenskan í vörn gagnvart ensku, ekki síst meðal ungs fólks. Í ágætum pistli sem Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur skrifaði á þjóðhátíðardaginn og deilt var í „Málspjalli“ sagði: „Svo mikið kveður að [...] enskunotkun Íslendinga að segja má að enskan sé að verða óopinbert opinbert mál hér á landi. Við þurfum að muna að það er hlutverk Íslendinga að varðveita íslenskuna. Það verður ekki Pólverjum eða Palestínumönnum að kenna ef við töpum íslenskunni heldur okkur sjálfum.“ Þetta rifjaðist óþægilega upp fyrir mér þegar ég sá að Arion banki hefur sett af stað markaðsherferð sem beinist að ungu fólki og er rekin undir kjörorði á ensku – „Arion sport 2025 spring summer“. Þetta er algerlega ótækt og bankanum til háborinnar skammar.
Það er ekki eins og erfitt sé að finna íslenskar samsvaranir við sport, spring og summer. Reyndar er eðlilegt að líta á tökuorðið sport sem fullgilda íslensku þótt íþróttir sé óneitanlega íslenskulegra orð, en það er óskiljanlegt og með öllu óafsakanlegt að nota ensku orðin spring og summer í stað erfðaorðanna vor og sumar. Þetta sendir þau skýru skilaboð að íslenska sé ekki kúl – enska sé eina málið sem mark er takandi á. Þótt eitt kjörorð á ensku kunni að virðast léttvægt eru það atriði eins og þetta sem grafa undan íslenskunni vegna þess að þau skapa neikvætt viðhorf til hennar en ýmsar rannsóknir sýna að lífvænleiki smáþjóðatungumála veltur ekki síst á viðhorfi ungu kynslóðarinnar – ef hún hefur neikvætt viðhorf til móðurmálsins á það sér ekki viðreisnar von.
Arion banki hefur sérstaka stefnu um samfélagsábyrgð og segir: „Hjá Arion banka leggjum við áherslu á að samfélagsábyrgð sé hluti af daglegri starfsemi bankans, ákvarðanatöku og ferlum.“ En samfélagsábyrgð snýr ekki bara að fjármálum – hún felst ekki síður í því að hlúa að grunngildum samfélagsins. Varla er ágreiningur um það að íslensk tunga sé meðal þessara grunngilda. Notkun ensks kjörorðs þar sem auðvelt væri að nota íslensku er algerlega andstæð þeirri samfélagslegu ábyrgð sem bankinn segist vilja hafa í heiðri og verður að líta á hana sem mistök. Þegar bent hefur verið á þessi mistök hljótum við að gera ráð fyrir því að bankinn hætti umsvifalaust notkun umrædds kjörorðs en velji markaðsherferð sinni íslenskt kjörorð í staðinn.